Erlent

Ástralía skraufþurr

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ástralskir bændur takast á við langt þurrkatímabil.
Ástralskir bændur takast á við langt þurrkatímabil. Vísir/Getty
Gríðarmiklir þurrkar hafa leikið eitt stærsta landbúnaðarhérað Ástralíu grátt.

Samkvæmt þarlendum mælikvörðum er héraðið, Nýja-Suður Wales, „100% þurrt,“ úrkoman náði ekki 10 millímetrum allan júlímánuð í héraðinu og eru áframhaldandi þurrkar í kortum áströlsku veðurstofunnar.

Héraðið framleiðir um fjórðung allra landbúnaðarafurða í Ástralíu og hafa áströlsk stjórnvöld heitið rúmlega 45 milljörðum króna í neyðaraðstoð. Mikill skortur er á fóðri og hafa bændur greitt háar upphæðir fyrir hey handa skepnum sínum.

„Það er ekki ein einasta manneskja í héraðinu sem vonast ekki eftir rigningu fyrir bændurna okkar,“ er haft eftir atvinnuvegaráðherra héraðsins Niall Blair.

Vandinn er þó ekki bundinn við Nýja-Suður Wales því nágrannahéröðin eru einnig skraufþurr. Forsætisráðherra landsins, Malcolm Turnbull, lýsti því yfir um helgina að Ástralía væri orðin að „þurrkalandinu,“ eins og hann orðaði það.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×