Grátlegt tap hjá Val

Anton Ingi Leifsson skrifar
Úr Evrópuleik Vals á síðasta tímabili.
Úr Evrópuleik Vals á síðasta tímabili. vísir/ernir
Íslandsmeistarar Vals töpuðu 1-0 fyrir Sheriff Tiraspol frá Móldavíu í fyrri leik liðanna í forkeppni Evrópudeildarinnar.

Heimamenn voru sterkari í fyrri hálfleik en leikið var í Moldavíu. Þeir skutu mikið af marki Valsmanna en skotin voru flest víðsfjarri.

Eitt besta færi fyrir hálfleiks fengu Valsmenn er Bjarni Ólafur fékk afar gott skallafæri en boltinn fór framhjá. Patrick Pedersen fékk einnig tækifæri eftir skyndisókn en lét verja frá sér.

Heimamenn fengu gott tækifæri undir lok fyrri hálfleiks er Alhaji Kamara var einn gegn marki en Eiður Aron Sigurbjörnsson kom sér á línuna og bjargaði skoti hans. Markalaust í hálfleik.

Síðari hálfleikur var jafnari. Valsmenn náðu að halda vel í boltann og ná öflugum skyndisóknum. Þeir náðu þó ekki að skapa sér mörg hættuleg færi en áfram héldu heimamenn að skjóta mikið á markið.

Eina mark leiksins kom fimm mínútum fyrir leikslok. Þá skoraði Ziguy Badibanga, sem hafði gert sig líklegan fyrr í leiknum, með skalla eftir fyrirgjöf. 1-0 sigur Sheriff á heimavelli.

Grátlegt tap hjá Valsmönnum eftir hetjulega baráttu en þeir eiga enn fínan möguleika að fara áfram. Síðari leikur liðanna verður á Vodafone-vellinum eftir viku en sigurliðið mætir annað hvort Qarabag eða Bate frá Borisov.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira