Fótbolti

Kristján Flóki lánaður til Svíþjóðar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Kristján Flóki Finnbogason í leik með FH síðasta sumar.
Kristján Flóki Finnbogason í leik með FH síðasta sumar. Vísir/Stefán
Kristján Flóki Finnbogason hefur verið lánaður til sænska úrvalsdeildarliðsins Brommapojkarna út tímabilið. Þetta hefur Vísir eftir sínum heimildum.

Kristján Flóki gekk í raðir Start í ágúst í fyrra frá FH og hjálpaði hann meðal annars að koma liðin upp í norsku úrvalsdeildina á nýjan leik.

Eftir að Mark Dempsey hætti sem þjálfari Start í maí og Kjetil Rekdal tók við hafa tækifærin verið af skornum skammti. Nú leitar Flóki því á ný mið.

Hann á að hjálpa Brommapojkarna að halda sæti sínu í sænsku úrvalsdeildinni en nýliðarnir eru í fallsæti eins og er, tveimur stigum frá öruggu sæti í deildinni.

Liðið hefur einungis skorað níu mörk í fjórtán leikjum í deildinni og á Hafnfirðingurinn að bæta sóknarleik liðsins en hann hefur skorað tvö mörk fyrir Start í norsku úrvalsdeildinni það sem af er leiktíð.

Með Brommapojkarna leikur varnarmaðurinn Martin Rauschenberg sem spilaði með Stjörnunni 2013-2014 en hann gekk í raðir Bromma í lok ársins 2017.

Fyrsti leikur Flóka með Brommapojkarna gæti verið næsta laugardag er liðið mætir Dalkurd en Dalkurd er einmitt á botni deildarinnar með níu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×