Innlent

Umbreytingar í veðri gætu hafist um helgina

Kjartan Kjartansson skrifar
Fátt hefur verið um fína drætti í sumarveðrinu SV-lands. Gangi spáin eftir gæti breyting orðið þar á. Myndin er fengin úr safni þökk sé tíðarfarsins í sumar.
Fátt hefur verið um fína drætti í sumarveðrinu SV-lands. Gangi spáin eftir gæti breyting orðið þar á. Myndin er fengin úr safni þökk sé tíðarfarsins í sumar. Vísir/Eyþór

Veðurspálíkön benda til þess að þrálát staða veðurkerfa sem hefur sett mark sitt á sumarið á Íslandi gæti riðlast um helgina. Því gæti fylgt fleiri sólardagar og hiti yfir meðaltali. Veðurfræðingur hvetur þó til hóflegrar bjartsýni.

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, fjallar um horfur fyrir ágústmánuð í færslu á Facebook-síðu sinni í kvöld. Vitnar hannar þar til hugleiðingar bandarísks veðurfræðings sem hefur túlkað mánaðarspá fyrir ágúst út frá bandarísku spálíkani.

Spá hans gerir ráð fyrir því að fyrirstöðuhæð sem hefur marað yfir Skandinavíu í sumar hjaðni og umbreyting gæti orðið þegar um helgina. Við taki bylgjumynstur í háloftunum næstu vikurnar sem einkennist af hæðarhrygg frá Íslandi og Suður-Grænlandi til Bretlandseyja og öðrum yfir Norðvestur-Kanada og Íshafinu.

„Ef þessi spá gengi eftir væru það ágæt tíðindi fyrir okkur. Í stað lægðaraveigju háloftavindsins og háloftakulda með sólarleysi og vætu, verður hæðarsveigja í straumnum. Sú breyting væri afgerandi og fylgdu þá fleiri sólardagar og hiti væntanlega yfir meðallagi. Vissulega ólíkir dagar eins og oftast, en tíðin frekar í þessa veru, en þá sem ríkt hefur framan af sumri,“ skrifar Einar.

Spáin úr bandaríska spálíkaninu segir Einar samræmast mánaðaspá Evrópsku reiknimiðstöðvarinnar (ECMWF) merkilega vel. Í henni sjáist  svipaðar hæðarsveigjur og í því bandaríska. Hann hvetur þó til þess að fólk stilli væntingum sínum í hóf.

„Sjáum hvað setur og verum hóflega bjartsýn!“ skrifar Einar.

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.