Innlent

Fann hvorki bílinn né barnabarnið

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Konunni brá þegar hún fann bílinn sinn hvergi að verslunarferð lokinni.
Konunni brá þegar hún fann bílinn sinn hvergi að verslunarferð lokinni. Vísir/Vilhelm
Fjöldi lögreglumanna hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var kallaður á vettvang í fyrradag þegar kona tilkynnti lögreglu að bílnum hennar hefði verið stolið sem var fyrir utan verslunarmiðstöð á höfuðborgarsvæðinu. Ástæðan fyrir hinum mikla viðbúnaði lögreglu var sú að barnabarn konunnar, sem er á leikskólaaldri, var í bílnum.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu greinir frá þessu í stöðuuppfærslu á Facebook.

Leit að barninu og bílnum hófst strax og voru önnur lögregluembætti upplýst um málið ef ske kynni að þjófurinn hefði ekið frá höfuðborgarsvæðinu.

Leitin stóð aftur á móti stutt yfir eða í um tíu mínútur því konan sjálf, sem kallaði eftir aðstoð lögreglu, fann bæði bílinn og barnið á bílastæði verslunarmiðstöðvarinnar. Skýringin er sú að konan fór út á öðrum stað en hún kom inn og brá því þegar hún fann ekki barnabarnið sitt.

Konunni létti að vonum mjög þegar hún fann bílinn og barnabarnið en hún var jafnframt leið yfir þessu öllu saman og reyndust þessar mínútur af óvissu henni erfiðar.

Lögreglan segir að konan hafi brugðist rétt við aðstæðunum og bætir við að mál af þessum toga þekkist vel í starfinu. Það geti komið fyrir alla að vera utan við sig.

„Hér fór allt vel og það er fyrir mestu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×