Erlent

Hollywood stjarna Trumps verður ekki fjarlægð þrátt fyrir ofbeldi og skemmdarverk

Bergþór Másson skrifar
Hollywood stjarna Trumps mölvuð.
Hollywood stjarna Trumps mölvuð. Twitter
Stjarna Bandaríkjaforsetans Donald Trump verður ekki fjarlægð á Hollywood Boulevard í Los Angeles borg. TMZ greinir frá þessu. Stjarnan var mölvuð með haka í síðustu viku og slagsmál milli stuðnings- og fjandmanna Trumps brutust síðan út á Frægðarstígnum vegna áframhaldandi viðveru stjörnunnar.

Stjarnan var á einni af rúmlega 2600 gangstéttarhellum sem hafa verið lagðar í götuna til að minnast goðsagna úr heimi skemmtanaiðnaðarins. Þessi kafli götunnar er þekktur sem Frægðarstígurinn.

Vísir greindi frá skemmdarverkunum á stjörnunni í vikunni og sýndi einnig myndband af manni mölva stjörnu Trumps með haka.

Dægurmálamiðillinn TMZ greinir frá því að lögregla Los Angeles borgar og eigendur Frægðarstígsins hafi tekið þá ákvörðun að fjarlægja ekki hina umdeildu stjörnu þrátt fyrir vandamálin sem hún veldur þeim reglulega.

Þetta er ekki fyrsta árásin á stjörnu Trumps í Hollywood. Fyrir tveimur árum réðst maður til atlögu með haka og loftpressu til að reyna að fjarlægja nafn Trumps af gangstéttinni.

Harkaleg slagsmál brutust út á Frægðarstígnum vegna stjörnunnar í vikunni. Hér má sjá myndband TMZ frá átökunum.

Ákvörðunin um að fjarlægja stjörnu Donald Trumps ekki var tekin til þess að setja fordæmi. Lögregla Los Angeles borgar og eigendur götunnar eru sammála um það að ef stjarna Trumps yrði fjarlægð myndi það leiða til þess að almenningur myndi halda áfram að skemma stjörnur frægs fólks sem þeim líkar ekki vel við.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×