Fótbolti

40 ár síðan erlendur þjálfari kom liði í úrslitaleik HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Martínez, spænskur þjálfari Bekga og franski aðstoðarmaður hans Thierry Henry fagna marki á HM í Rússlandi.
Roberto Martínez, spænskur þjálfari Bekga og franski aðstoðarmaður hans Thierry Henry fagna marki á HM í Rússlandi. Vísir/Getty
Roberto Martínez á möguleika að komast í mjög fámennan hóp HM-þjálfara komi hann liði Belgíu í úrslitaleik HM í fótbolta í kvöld.

Belgar mæta þá nágrönnum sínum í Frakklandi í fyrri undanúrslitaleik heimsmeistarakeppninnar í Rússlandi en leikurinn fer fram í Sankti Pétursborg.

Martínez getur þá orðið fyrsti erlendi þjálfarinn í 40 ár sem kemur liði í úrslitaleik HM karla í fótbolta.

Síðastur til að afreka slíkt var Austurríkismaðurinn Ernst Happel á HM í Argentínu.

Ernst Happel fór þá með Hollendinga í úrslitaleikinn þar sem liðið varð að sætta sig við tap á móti heimamönnum í Argentínu eftir framlengdan leik.

Aðeins tveir aðrir erlendir þjálfarar hefur tekist að koma liði í úrslitaleik heimsmeistaramóts. Hinir eru George Raynor, enskur þjálfari sænska landsliðsins á HM í Svíþjóð 1958 og Rudolf Vytlacil, austurrískur þjálfari Tékka á HM 1962.

Engum þeirra tókst hinsvegar að gera liðið sitt að heimsmeisturum. Svíar töpuðu fyrir Brasilíumönnum 1958 alveg eins og Tékkar fjórum árum seinna.





Roberto Martínez er 44 ára Spánverji sem spilaði stærsta hluta ferils síns með Wigan í Englandi og Swansea í Wales. Hann hefur þjálfað belgíska landsliðið frá árinu 2016 en var áður knattspyrnustjóri Everton í þrjú ár.

Roberto Martínez var líka stjóri liðanna sem hann lék lengsta hjá sem varnarsinnaður miðjumaður, Swansea City frá 2007 til 2009 og Wigan frá 2009 til 2013.

Þetta er fyrsti undanúrslitaleikur Belga á HM í 32 ár eða síðan liðið mætti Argentínu í undanúrslitaleiknum á HM í Mexíkó 1986. Þá skoraði Diego Maradona bæði mörkin í 2-0 sigur Argentínu sem seinna varð heimsmeistari eftir 3-2 sigur á Vestur-Þýskalandi í úrslitaleiknum í Mexíkóborg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×