Erlent

Musk ýmist hylltur eða gagnrýndur harðlega fyrir að vilja aðstoða

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Elon Musk lét verkfræðinga sína útbúa þetta hylki.
Elon Musk lét verkfræðinga sína útbúa þetta hylki. Vísir
Bandaríski tæknifrumkvöðullinn Elon Musk er ýmist hylltur eða gagnrýndur harðlega fyrir tilraunir hans og samstarfsfélaga til þess að finna lausn til þess að koma knattspyrnudrengjunum tólf og þjálfara þeirra út úr hellinum í Taílandi.

Greint hefur verið frá því síðustu daga að Musk hafi látið verkfræðinga sem starfa á vefum fyrirtækja hans hanna sérútbútið hylki. Var hugmyndin að hægt yrði að koma drengjunum fyrir í hylkinu svo þeir þyrftu ekki að kafa úr hellinum. Kafararnir gætu síðan dregið hylkið á eftir sér.

Musk birti myndir af þróun verkefnisins og greindi frá því á sunnudaginn að hylkið hafði verið sent til Taílands svo skoða mætti hvort hægt væri að nota það. Ef marka má myndir á samfélagsmiðlum Musk dúkkaði hann svo sjálfur upp við hellinn og fylgdist hann með björgunaraðgerðum er síðustu drengjunum og þjálfaranum var fylgt út fyrr í dag.

Ekki í fyrsta sinn sem Musk býður fram aðstoð í krísu

Ekki reyndist unnt að nota hylkið og sagði Narongsak Osotthanakorn. stjórnandi aðgerða á svæðinu, að þrátt fyrir að hylkið virtist vel heppnað gætu björgunarmenn ekki notast við það þar sem það hentaði ekki aðstæðum í hellinum. Musk sagði hins vegar að hylkið hafi verið skilið eftir hjá yfirvöldum, ef ske kynni að gæti nýst í öðrum aðgerðum í framtíðinni.

Musk virðist reyndar ekki vera hrifinn af ummælum Narongsak ef marka má færslu á Twitter-síðu hans þar sem hann segir að Narongsak sé enginn sérfræðingur um málið og vísar til tölvupóstsamskipta við Richard Stanton, einn af þeim sem stýði aðgerðum kafara, þar sem Stanton hvetur Musk áfram til þess að þróa hylkið.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Musk býðst til þess að koma til hjálpar en á síðasta ári sendi hann sólarsellur og risastór batterí til Púertó Ríkó til þess að hleypa rafmagni á barnaspítala í San Juan eftir fellibyljatímabilið þar í fyrra sem skildi stóra hluta Púertó Ríkó eftir án rafmagns.

Ýmsir hafa þó gagnrýnt Musk fyrir að hafa skipt sér af björgunaraðgerðunum í Taílandi og sakað hann um að hafa ætlað sér að nýta þá miklu athygli sem verið hefur á björgunaraðgerðunum í eigin þágu og er farið yfir gagnrýnina í frétt BBC.

„Ég er verkfræðingur. Allir þeir sem hafa grunnþekkingu á landafræði og verkfræði vita að „kafbáturinn hans“ Elon Musk er ekki hjálplegur í þessum aðstæðum. Samt spilaði hann með til þess að fá athygli frá heimsbyggðinni,“ skrifar Vishnu Narayanan.

„Af hverju er Elon Musk að reyna að stela athyglinni frá þessaru stórbrotnu björgunaraðgerð. Ef hann vildi í alvöru hjálpa hefði hann getað gert það á settlegri hátt, líkt og allir þessir kafarar sem eru að hjálpa til“, skrifar Harshit Gupta.

Ýmsir koma þá Musk til varnar og segja ótrúlegt að fólk vogi sér að gagnrýna Musk fyrir að hafa reynt að aðstoða við björgunina, líkt og sjá má hér að neðan.

Þá greindi talsmaður forsætisráðherra Taílands frá því að forsætisráðherrann væri mjög þakklátur fyrir þá aðstoð sem Musk bauð fram, þrátt fyrir að ekki hafi reynst þörf á því að nýta sér hylkið.


Tengdar fréttir

Sérútbúið hylki á leið frá Elon Musk til Taílands

Elon Musk, eigandi SpaceX og Tesla, hefur sent lítinn kafbát til Taílands sem mögulegt er að verði notaðir í björgunaraðgerðum vegna þeirra níu sem eftir sitja í hellinum í Chiang Rai. CNN greinir frá.

Öllum drengjunum bjargað úr hellinum

Öllum tólf drengjunum og fótboltaþjálfara þeirra, sem hírst hafa í helli í norðurhluta Taílands í 17 daga, hefur verið bjargað.

Heimsbyggðin fagnar því að drengirnir hafi komist út

Fregnir af því að fótboltadrengjunum tólf og þjálfara þeirra hafi öllum verið bjargað hafa farið eins og eldur um sinu um heimsbyggðina. Þjóðarleiðtogar og knattspyrnulið víða um heim hafa lýst yfir ánægju sinni með það að allir séu heilir á húfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×