Fótbolti

Danskur landsliðsmaður inn á listann yfir stystu HM-ferla sögunnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lukas Lerager í stúkunni með kærustunni á HM. Hann fékk aðeins eina stutta innkomu.
Lukas Lerager í stúkunni með kærustunni á HM. Hann fékk aðeins eina stutta innkomu. Vísir/Getty
Danski landsliðsmaðurinn Lukas Lerager spilaði sögulega lítið á HM í fóbolta í Rússlandi þar sem Danir komust í sextán liða úrslitin.

Lukas Lerager spilaði aðeins í 81 sekúndu á mótinu eftir að hafa komið inná sem varamaður í leik á móti Frakklandi í riðlakeppninni.

Lukas Lerager kom þá inná fyrir Thomas Delaney á annarri mínútu í uppbótartíma leiksins.

Lerager náði aldrei að koma við  boltann á þessum tíma en tölfræði FIFA segir að hann hafi hlaupið alls 198 metra.

Lukas Lerager komst með þessum stutta leiktíma inn á listann yfir stystu HM-ferla sögunnar. Hann skipar núna annað sæti listans.





Hollenski markvörðurinn Tim Krul spilaði bara 48 sekúndur árið 2014 þegar hann kom inn rétt fyrir vítaspyrnukeppni á móti Kosta Ríka þar sem hann síðan varði tvær spyrnur. Holland vann vítakeppnina en Krul spilaði ekki meira í mótinu.

Þar sem að Tim Krul tók líka þátt í vítakeppninni þá er alveg hægt að rökstyðja það að hann hafi í raun spilað lengur en Lukas Lerager og að danski strákurinn ætti því að eiga þetta HM-met. Tölfræðilega er hann engu að síðustu í 2. sætinu á eftir Tim Krul .

Lerager fór aftur á móti uppfyrir Argentínumanninn Marcelo Trobbiani. Trobbiani á samt eina frægustu innkomu allra tíma á HM. Einu sekúndurnar sem hann spilaði á HM voru nefnilega 87 síðustu sekúndurnar í úrslitaleik HM í Mexíkó 1986.

Marcelo Trobbiani kom einu sinni við boltann í leiknum en hann átti þá hælspyrnu á félaga sinn í argentínska landsliðinu.

Lukas Lerager er 24 ára miðjumaður og leikmaður Bordeaux í Frakklandi. Leikurinn á móti Frökkum var hans fimmti landsleikur á ferlinum.

Til fróðleiks þá var það Arnór Ingvi Traustason sem spilaði minnst af íslensku strákunum á HM af þeim sem komu eitthvað við sögu. Arnór Ingvi spilaði í fjórar mínútur og 56 sekúndur eftir að hann kom inná fyrir Birki Bjarnason í leiknum á móti Króatíu. Albert Guðmundsson spilaði í 9 mínútur og 24 sekúndur á móti Króötum.

Lukas Lerager í leiknum á móti Frökkum.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×