Fótbolti

Íslandsáhrifin eru sterk á stórmótunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Króatíski snillingurinn Luka Modric reynir að loka á Jóhann Berg Guðmundsson í leik Íslands og Króatíu á HM 2018.
Króatíski snillingurinn Luka Modric reynir að loka á Jóhann Berg Guðmundsson í leik Íslands og Króatíu á HM 2018. Vísir/Getty

Bestu lið heims fagna því örugglega þegar þau dragast næst í riðil með íslensku landsliði á stórmóti á vegum FIBA, FIFA eða UEFA.

Þau mega vissulega búast við erfiðum leikjum á móti baráttuglöðum íslenskum landsliðsmönnum en um leið fylla þau á lukkubensíntankinn sinn.

Pétur Hrafn Sigurðsson, fyrrum framkvæmdastjóri Körfuknattleikssamband Íslands, benti á skemmtilega staðreynd á fésbókinni eftir að Króatar komust í úrslitaleikinn á HM.

Það hefur nefnilega verið mjög gott að vera í riðli með Íslandi á stórmótum í fótbolta og körfubolta eins og reynsla síðustu fjögurra ára hefur sannað.

Cristiano Ronaldo og félagar í portúgalska landsliðinu unnu EM 2016. Vísir/Getty

Íslandsáhrifin sterk á stórmótunum 2015-2018:

EM í körfu 2015, Ísland í riðli með Spáni og Spánn Evrópumeistari.

EM í fótbolta 2016, Ísland í riðli með Portúgal og Portúgal Evrópumeistari.

EM í körfu 2017, Ísland í riðli með Slóveníu og Slóvenía Evrópumeistari.

HM í fótbolta 2018, Ísland í riðli með Króatíu og ??????

Goran Dragic og félagar í slóvenska landsliðinu unnu EM í körfu 2017. Vísir/Getty

Króatarnir eiga reyndar eftir að fara í mjög erfiðan úrslitaleika á móti Frökkum þar sem flestir knattspyrnuspekingar spá örugglega franska landsliðinu sigri.

Þannig var einnig staða Portúgala á EM fyrir tveimur árum. Þá mættu þeir öflugu frönsku landsliði í úrslitaleiknum en unnu samt og það þótt að Frakkarnir væru á heimavelli.

Það bjuggust heldur ekki margir við því að Slóvenar færu alla leið á Eurobasket 2017 en slóvenska landsliðið vann EM í fyrsta sinn síðan landsliðið sleit sig frá Júgóslavíu.

Það mun því kannski sanna sig enn á ný að það er góður undirbúningur fyrir farsæla útsláttarkeppni á stórmótum að hafa mætt íslensku landsliði í riðlakeppni mótsins.

Spánverjar unnu EM í körfu 2015. Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.