Fótbolti

Southgate: Erum líklega ekki fjórða besta lið heims

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Southgate hefur gert frábæra hluti með enska landsliðið
Southgate hefur gert frábæra hluti með enska landsliðið Vísir/Getty
Gareth Southgate og lærisveinar hans í enska landsliðinu þurftu að sætta sig við fjórða sætið á HM í Rússlandi eftir 2-0 tap fyrir Belgum í leiknum um bronsverðlauninn í dag.

„Belgar eru með betra lið en við. Við höfðum færri daga til þess að endurheimta fullan styrk og þetta var einum leik of mikið fyrir okkur,“ sagði Southgate við enska fjölmiðla að leik loknum.

„Þetta er besti árangur Belga á HM og þeir eiga hann skilið.“

„Við náðum að gera þeim erfitt fyrir og héldum þeim föstum en þeir eru með hágæða leikmenn.“

Englendingar tefldu fram ungu og reynslulitlu liði á mótinu og segir Southgate þá eiga framtíðina fyrir sér.

„Þetta er hátindur ferilsins hjá belgíska liðinu. Við erum hins vegar langt frá því að ná okkar hátindi og við vissum það allan tíman. Við vorum með keppnisskapið í lagi og gerðum betur heldur en við bjuggumst við og náðum okkar markmiðum. Við erum líklega ekki fjórða besta lið heims, en við eigum skilið allt það hrós sem leikmennirnir eru að fá.“

„Við reynum að draga fram það besta úr leikmönnunum okkar. Þetta er ekki félagafótbolti, við getum ekki keypt okkur leikmenn, en þessir leikmenn sem eru hér hafa borði sig óaðfinnanlega og ég gæti ekki hafa beðið um meira,“ sagði Gareth Southgate.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×