Fótbolti

Ronaldo átti bestu einstöku frammistöðuna á HM

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ronaldo skoraði fjögur mörk á HM í Rússlandi
Ronaldo skoraði fjögur mörk á HM í Rússlandi Vísir/getty
Cristiano Ronaldo átti bestu einstöku frammistöðuna á HM í Rússlandi miðað við tölfræði WhoScored.com. Frammistaða Nígeríumannsins Ahmed Musa gegn Íslandi kemst inn á topp 10 listann.

SkySports tók saman tölfræðigögn frá WhoScored.com og setti upp lista yfir 10 bestu einstaklingsframmistöðurnar í einstaka leikjum á HM í Rússlandi.

Ronaldo skoraði þrennu í fyrsta leik sínum á mótinu gegn Spánverjum. Hann fékk 9,83 í tölfræðieinkum í leiknum, þá bestu sem einstaka leikmaður náði á mótinu. Hann skoraði úr þremur af fjórum skotum sínum á markið, átti eina lykilsendingu og vann fimm skallaeinvígi. Það þarf því engan að undra að hann var valinn maður leiksins í þessum leik.

Næst bestu frammistöðuna átti Aleksandr Golovin í opnunarleik HM, leik Rússa og Sádi-Araba, þar sem hann gaf tvær stoðsendingar og skoraði eitt mark sjálfur. Harry Kane var í þriðja sæti fyrir leik sinn gegn Panama þar sem hann skoraði þrennu.

Heimsmeistarar Frakka eiga bara einn fulltrúa á listanum, ungstirnið Kylian Mbappe. Hinn 19 ára Mbappe, sem var valinn besti ungi leikmaður mótsins, var frábær í 16-liða úrslitunum gegn Argentínu og var frammistaða hans í þeim leik sú fjórða besta á mótinu.

Í sjöunda sæti listans situr Ahmed Musa fyrir frammistöðu sína gegn Íslandi í riðlakeppninni. Musa skoraði bæði mörkin í leiknum úr þremur skotum og fékk 9,54 í einkunn.

Alla samantekt SkySports má lesa hér.

Bestu frammistöður einstaklings á HM 2018:

1. Cristiano Ronaldo á móti Spáni

2. Aleksandr Golovin á móti Sádi-Arabíu

3. Harry Kane á móti Panama

4. Kylian Mbappe á móti Argentínu

5. Jose Gimenez á móti Egyptalandi

6. Isco á móti Marokkó

7. Ahmed Musa á móti Íslandi

8. Neymar á móti Serbíu

9. Willian á móti Mexíkó

10. Eden Hazard á móti Túnis




Fleiri fréttir

Sjá meira


×