Sigurmark á síðustu mínútunni skaut Belgum áfram

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Chadli fagnar marki sínu og sigri Belga
Chadli fagnar marki sínu og sigri Belga Vísir/Getty
Varamaðurinn Nacer Chadli skaut Belgum áfram í 8-liða úrslit með marki á lokamínútu uppbótartímans gegn Japan.

Eftir markalausan fyrri hálfleik var sá seinni stútfullur af dramatík sem náði hámarki í uppbótartímanum. Japan komst tveimur mörkum yfir, Belgar náðu að jafna og kláruðu svo leikinn í síðustu sókn leiksins.

Shinji Kagawa byrjaði leikinn á skoti að marki eftir um mínútu leik. Síðan var fyrri hálfleikurinn nær eingöngu leikinn á vallarhelmingi Japan. Belgar óðu í færum en það vantaði herslumuninn. Japan náði aðeins að sækja undir lok hálfleiksins en það var markalaust þegar flautað var til leikhlés.

Seinni hálfleikurinn byrjaði frábærlega. Genki Haraguchi skoraði eftir aðeins þrjár mínútur. Markið kom upp úr skyndisókn, sendingin kom inn fyrir vörnina þar sem Jan Vertonghen var í boltanum en náði þó ekki að koma í veg fyrir að boltinn rataði á Haraguchi sem kláraði framhjá Thibaut Courtois.

Inui átti glæsilegt skot sem kom Japan 2-0 yfirvísir/getty
Örfáum augnablikum síðar átti Eden Hazard þrumuskot í stöngina en það voru Japanir sem gerðu næsta mark. Það kom á 52. mínútu. Vincent Kompany skallaði boltann frá teig Belga en aðeins fyrir Shinji Kagawa. Kagawa lagði upp fyrir Takashi Inui sem mundaði hægri fótinn og skoraði með glæsilegu skoti við hægri stöngina, óverjandi fyrir Courtois.

Roberto Martinez gerði tvöfalda skiptingu stuttu síðar þar sem Nacer Chadli og Marouane Fellaini komu inn og þeir áttu heldur betur eftir að hafa áhrif á leikinn.

Á 69. mínútu bætti Vertonghen upp fyrir mistök sín í fyrsta markinu. Hann átti skalla upp úr hornspyrnu sem virkaði saklaus en hann fór yfir Eiji Kawashima og í netið. Fimm mínútum seinna áttu Belgar aðra hornspyrnu. Eden Hazard átti fyrirgjöf beint á kollinn á Fellaini sem skallaði í netið og jafnaði fyrir Belga.

Fellaini jafnaði með föstum skallavísir/getty
Bæði lið sóttu og gerðu sitt besta til þess að ná í sigurmarkið. Kawashima varði meistaralega frá Romelu Lukaku og Keisuke Honda ógnaði Courtois úr aukaspyrnu.

Það leit þó allt út fyrir að leikurinn væri á leið í framlengingu, komið fram á síðustu mínútu uppbótartímans þegar Honda tók hornspyrnu. Courtois greip hana auðveldlega og var fljótur að kasta boltanum í hlaupið hjá Kevin de Bruyne. De Bruyne tók á rás og spretti upp völlinn. Hann fann Thomas Meunier sem sendi fyrir markið. Lukaku lét boltann fara og Chadli kom hlaupandi inn í teiginn, einn fyrir markinu og gat ekki klúðrað, boltinn í netinu og Belgar fara áfram.

Belgar mæta Brasilíu í 8-liða úrslitunum en Japan er úr leik.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira