Fótbolti

Danskur framherji fékk morðhótanir eftir að hann brenndi af víti

Kjartan Kjartansson skrifar
Danijel Subasic varði vítaspyrnu Jørgensen og sló Dani út úr 16-liða úrslitum HM.
Danijel Subasic varði vítaspyrnu Jørgensen og sló Dani út úr 16-liða úrslitum HM. Vísir/EPA
Danska knattspyrnusambandið hefur tilkynnt til lögreglu morðhótanir sem Nicolai Jørgensen, framherji karlalandsliðsins, fékk eftir að hann brenndi af vítaspyrnu gegn Króötum í sextán liða úrslitum heimsmeistarakeppninnar í Rússlandi á sunnudag.

Samfélagsmiðlar fylltust af níði um Jørgensen eftir að honum brást bogalistin í vítaspyrnukeppninni þar sem Danir féllu úr leik, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Tveir aðrir leikmenn liðsins brenndu af sínum spyrnum en Jørgensen átti síðustu spyrnuna.

„Stopp. Samfélag okkar má aldrei líða morðhótanir, hvorki gegn heimsmeistaramótsstjörnum, stjórnmálamönnum eða öðrum. Þetta er algerlega óviðunandi og smekklaust,“ sagði danska knattspyrnusambandi í yfirlýsingu þar sem það tilkynnti um kæruna til lögreglu.

Jøregensen er ekki fyrsti norræni leikmaðurinn sem verður fyrir níði og hótunum á heimsmeistaramótinu. Sænski leikmaðurinn Jimmy Durmaz mátti þola kynþáttaníð á samfélagsmiðlum eftir að Þjóðverjar skoruðu sigurmark á síðustu andartökum leiks landanna í riðlakeppninni úr aukaspyrnu sem Durmaz hafði gefið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×