Erlent

Eins og eitthvað úr bíó­mynd að fá fréttirnar um að fót­bolta­strákarnir væru á lífi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Myndin sýnir þegar björgunarlið fór inn í hellinn þar sem drengirnir og þjálfari þeirra fundust.
Myndin sýnir þegar björgunarlið fór inn í hellinn þar sem drengirnir og þjálfari þeirra fundust. vísir/ap
Jessica Tait, foringi í bandaríska flughernum, segir að það hafi verið eins og eitthvað úr bíómynd að fá fréttirnar um að taílensku fótboltastrákarnir hefðu fundist á lífi í hellinum Tham Luang Nang Non.

Tait er ein af fjölmörgum í alþjóðlegu leitarteymi sem leitað hafði að drengjunum áður en þeir fundust í gær en þeir höfðu þá verið í hellinum í níu daga. Þar eru þeir enn við erfiðar aðstæður og alls óvíst hvenær þeim verður bjargað úr hellinum en alls eru drengirnir tólf á aldrinum ellefu til sextán ára og eru þeir í hellinum með þjálfara sínum.

 

Rætt er við Tait á vef Gurdian en hún ásamt öðrum leitarliðinu, sem nú er orðið björgunarlið, er með bækistöð við rætur fjallsins Nang Non. Hún lýsir andrúmsloftinu í bækistöðvum hópsins, sem eru í raun nokkurs konar björgunarbúðir, sem góðu en auk hermanna eru þar kafarar, heilbrigðisstarfsmenn, björgunarsveitarmenn og aðrir sjálfboðaliðar.

Hellirinn er í norðurhluta Taílands og voru drengirnir í skoðunarferð um hann með þjálfara sínum þegar þeir lokuðust þar inni vegna úrhellisrigningar.vísir/graphic news
„Við höfum öll verið hér sem ein fjölskylda, við höfum unnið saman, og ég hef aldrei fundið á neinum að hann sé að missa móðinn. Í raun fann ég fyrir mikilli von,“ segir Tait en hún ásamt öðrum í leitar-og björgunarliðinu var send á staðinn í síðustu viku að beiðni taílensku ríkisstjórnarinnar.

„Þetta var eins og eitthvað úr bíómynd þegar við fengum góðu fréttirnar. Ég fæ gæsahúð þegar ég hugsa um þetta augnablik og að svona mikil vinna hafi skilað einhverju jákvæðu því það gerist ekki alltaf,“ segir Tait.

En þrátt fyrir jákvæðni og von er óvissan líka til staðar því enn er óljóst hvað gerist næst; hvenær drengjunum verður bjargað og hvernig.


Tengdar fréttir

Gætu þurft að vera mánuði í hellinum

Óttast er að taílensku fótboltastrákarnir, sem fundust í gær við mikinn fögnuð heimsbyggðarinnar, gætu þurft að dvelja í hellinum í nokkra mánuði í viðbót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×