Fótbolti

Southgate: Höfum vanmetið Svía í áraraðir

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sigurinn þýddi mikið fyrir Southgate
Sigurinn þýddi mikið fyrir Southgate víris/getty
Gareth Southgate er fyrstur manna til þess að stýra Englandi til sigurs í vítaspyrnukeppni á HM í fótbolta. Englendingar slógu Kólumbíu út í 16-liða úrslitum í kvöld.

„Þetta er frábært og við áttum þetta skilið. Við spiluðum svo vel í 90 mínútur, sýndum karakter með því að koma til baka eftir mikil vonbrigði og vorum rólegir. Þetta er mikil viðurkenning fyrir alla leikmennina og starfsliðið,“ sagði Southgate eftir leikinn.

Harry Kane kom Englendingum yfir úr vítaspyrnu um miðjan seinni hálfleik áður en Yerry Mina skoraði jöfnunarmark Kólumbíu í uppbótartíma venjulegs leiktíma.

„Vítaspyrnukeppnir eru erfiðar. Við höfum lagt mikla áherslu á að ná stjórn á aðstæðunum og þeir héldu sér rólegum. Leikmennirnir hafa tekið allt til sín og þetta er sérstakt augnablik fyrir okkur.“

„Við fórum yfir tækni, hvernig við ættum að haga okkur sem lið, hlutverk markvarðarins. Þetta var sérstakt en við þurfum að halda áfram. Svíar eru lið sem okkur hefur gengið illa gegn og við höfum vanmetið þá í áraraðir.“

„Ég vil ekki fara heim strax,“ sagði Gareth Southgate.

England mætir Svíþjóð í 8-liða úrslitum á laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×