Fótbolti

Eric Dier átti ekki að taka fimmtu vítaspyrnu Englendinga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Enski landsliðsþjálfarinn Gareth Southgate fagnar Eric Dier eftir leikinn.
Enski landsliðsþjálfarinn Gareth Southgate fagnar Eric Dier eftir leikinn. Vísir/Getty
Eric Dier tryggði enska landsliðinu sæti í átta liða úrslitum á HM í Rússlandi í gærkvöldi en nú er komið í ljós að miðjumaðurinn átti aldrei að taka þessa fimmtu vítaspyrnu liðsins.

Jamie Vardy kom inná sem varamaður í leiknum og það var framherji Leicester liðsins sem átti að taka fimmtu spyrnu enska liðsins á eftir þeim Harry Kane, Marcus Rashford, Jordan Henderson og Kieran Trippier.

Vardy tognaði hinsvegar á nára í leiknum og gat því ekki tekið spyrnuna mikilvægu. Það verkefni var því sett á herðar Tottenham-leikmannsins. Dier er 24 ára gamall og var að spila sinn 29. landsleik.





Eric Dier skoraði alveg eins og liðfélagar hans hjá Tottenham, Harry Kane og Kieran Trippier. Liverpool maðurinn Jordan Henderson var sá eini sem klikkaði.

Sky Sports segir frá þessu og þar kemur einnig fram að óvíst sé með þátttöku Jamie Vardy í leiknum á móti Svíum í átta liða úrslitunum sem fer fram á laugardaginn.

„Vardy tekur vítin fyrir Leicester City og hann átti að taka þetta fimmta víti. Hann tognaði á nára í lokin á framlengingunni svo að Dier fær mikið hrós fyrir að stíga fram,“ sagði Rob Dorsett á Sky Sports News.

„Þetta var mikið stress. Ég hafði aldrei áður verið í stöðu sem þessari en mér fannst ég yrði að skora eftir að ég klikkaði á þessu skallafæri í lok leiksins. Ég er bara þakklátur fyrir það að ná að skora,“ sagði Eric Dier eftir leikinn.

Dele Alli og Harry Kane eru líka tæpir fyrir Svíaleikinn og þá sérstaklega Alli sem hefur verið að glíma við meiðsli allt heimsmeistaramótið.

Vítið hjá Eric Dier.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×