Fótbolti

Englendingar fá góðar fréttir tveimur dögum fyrir Svíaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kane er búinn að ná sér af bakmeiðslunum. Ekki er vitað hvort að hann hafi hreinlega meiðst í fagnaðarlátunum í leikslok.
Harry Kane er búinn að ná sér af bakmeiðslunum. Ekki er vitað hvort að hann hafi hreinlega meiðst í fagnaðarlátunum í leikslok. Vísir/Getty
Enska landsliðið mætir Svíum í átta liða úrslitum HM í fótbolta í Rússlandi á laugardaginn og í gær höfðu menn áhyggjur af meiðslum fimm öflugra leikmanna. Nú lítur þetta miklu betur út.

Leikmennirnir fimm sem voru tæpir voru Harry Kane, Kyle Walker, Ashley Young, Jamie Vardy og Dele Alli.

Sky Sports segir frá því í morgun að bæði Dele Alli og Ashley Young muni æfa með enska liðinu í dag, tveimur dögum fyrir Svíaleikinn, og ættu því báðir að vera leikfærir komi ekkert óvænt upp á æfingunum.





Dele Alli og Ashley Young brugðust vel við meðferð sjúkraþjálfara enska liðsins. Alli hefur verið að glíma við tognun aftan í læri allt mótið og leik þannig ekki með enska liðinu í leikjunum á móti Panama og Belgíu.

Ashley Young meiddist á ökkla í leiknum við Kólumbíu en hefur náð sér vel á strik í meðferðinni og verður með á laugardaginn.

Harry Kane, var slæmur í bakinu og Kyle Walker, fékk krampa, eru báðir klárir í slaginn og það þarf ekki að hafa áhyggjur af þátttöku þeirra.  Margir enskir stuðningsmenn fengu smá sjokk þegar fréttir af vandræðum Harry Kane en markahæsti maður keppninnar ætlar ekki að missa af þessum leik á móti Svíum.

Enska landsliðið mun hinsvegar æfa fyrir luktum dyrum í dag og engir fjölmiðlamenn fá að fylgjast með. Fjölmiðlamennirnir fá því ekki tækifæri til að meta virkni og hreyfigetu umræddra leikmanna á æfingunni.

Samkvæmt frétt Sky Sports þá er nú bara einn af þessum fimm tæpum en það er Jamie Vardy sem meiddist undir lok framlengingarinnar á móti Kólumbíu og gat af þeim sökum ekki tekið víti í vítakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×