Erlent

Franski leikstjórinn Claude Lanzmann er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Claude Lanzmann er þekktastur fyrir heimildarmyndina Shoah.
Claude Lanzmann er þekktastur fyrir heimildarmyndina Shoah. Vísir/Getty
Franski leikstjórinn, rithöfundurinn og blaðamaðurinn Claude Lanzmann er látinn. Að sögn útgefanda Lanzmann andaðist Lanzmann á heimili sínu í París í morgun. Hann varð 92 ára gamall.

Lanzmann er þekktastur fyrir Shoah, níu klukkustunda langa heimildarmynd sína um helför gyðinga sem þykir ein af merkustu heimildarmyndum sögunnar. Í myndinni er rætt við nokkra þá sem lifðu af vist í útrýmingarbúðum nasista í Póllandi í síðari heimsstyrjöldinni.

Nýjasta heimildarmynd Lanzmann, Les quatre soeurs, Systurnar fjórar, var frumsýnd í Frakklandi einungis fyrir nokkrum dögum síðan.

Leikstjórinn fæddist í París árið 1925 og umgekkst ungur heimspekingana Simone de Beauvoir og Jean-Paul Satre. Hann tók við ritstjórastöðunni hjá blaðinu Les Temps Modernes af de Beauvoir, stöðu sem hann gegndi allt til dauðadags.

Lanzmann var giftur leikkonunni Judith Magre til ársins 1971. Hann gekk tvívegis í hjónaband eftir það og eignaðist tvö börn, dótturina Angelique og soninn Felix.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.