Fótbolti

Fyrrum markvörður Spánar ráðinn yfirmaður knattspyrnumála

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Stokkað upp hjá spænska knattspyrnusambandinu eftir vonbrigðin á HM í Rússlandi
Stokkað upp hjá spænska knattspyrnusambandinu eftir vonbrigðin á HM í Rússlandi vísir/getty
Jose Francisco Molina hefur verið ráðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá spænska knattspyrnusambandinu en þetta var tilkynnt á blaðamannafundi sambandsins í morgun.

Molina tekur við starfinu af Fernando Hierro en Hierro sinnti starfinu í aðdraganda HM í Rússlandi en tók svo að sér þjálfarastarf spænska landsliðsins þegar Julen Lopetegui var rekinn, tveimur dögum fyrir fyrsta leik Spánverja í mótinu.

Hierro fór með spænska liðið í 16-liða úrslit þar sem það beið lægri hlut fyrir Rússlandi eftir vítaspyrnukeppni. Í kjölfarið ákvað Hierro að segja starfi sínu lausu hjá spænska knattspyrnusambandinu.

Molina átti ágætan leikmannaferil í spænska boltanum en hann lék sem markvörður og var lengstum á mála hjá Atletico Madrid og Deportivo La Coruna.Hann spilaði níu landsleiki fyrir Spánverja á árunum 1996-2000.

Hann er 47 ára gamall og hefur átt fremur skrautlegan þjálfaraferil. Hans fyrsta aðalþjálfarastarf var hjá Villarreal þar sem hann entist aðeins í fjóra mánuði. Þaðan fór hann til Getafe og stýrði B-liði félagsins.

Í kjölfarið yfirgaf Molina heimalandið til að taka við Kitchee í Hong-Kong þar sem hann vann þrefalt á sínu eina tímabili með liðið. Hann tók svo við Atletico Kolkata í Indlandi og gerði liðið að Indlandsmeisturum 2016.

Því næst lá leið Molina til Mexíkó þar sem hann tók við stjórnartaumunum hjá Atletico San Luis í B-deildinni. Það gekk vægast  sagt illa og var Molina rekinn á miðju tímabili í febrúar síðastliðnum en er nú kominn í flott starf hjá spænska knattspyrnusambandinu.

Spænskir fjölmiðlar höfðu áður greint frá því að annar fyrrum landsliðsmaður Spánar, Carlos Marchena, yrði ráðinn sem yfirmaður knattspyrnumála og kemur ráðning Molina því einhverjum á óvart. Molina er vel til vina við Luis Rubiales, forseta spænska knattspyrnusambandsins, eftir að þeir léku saman með Levante.

Allar líkur eru taldar á því að Luis Enrique verði næsti landsliðsþjálfari Spánverja og verður líklega tilkynnt um ráðninguna síðar í dag.


Tengdar fréttir

Hierro: Ég sé ekki eftir neinu

Fernardo Hierro, þjálfari Spánar, segist ekki sjá eftir því að hafa tekið við Spánverjum aðeins tveimur dögum fyrir mót þrátt fyrir að vera á heimleið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×