Fótbolti

Spænska liðið stendur á bak við de Gea þrátt fyrir gagnrýni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
De Gea hefur fengið á sig fimm mörk í keppninni til þessa
De Gea hefur fengið á sig fimm mörk í keppninni til þessa vísir/getty
David de Gea er af mörgum talinn einn besti markvörður heims. Hann hefur hins vegar ekki verið að gera gott mót á HM í Rússlandi til þessa og hafa margir stuðningsmenn Spánverja kallað eftir því að hann verði settur á bekkinn.

Það ákall fær þó ekki hljómgrunn innan spænska landsliðshópsins og hafa liðsfélagar de Gea fulla trú á honum.

„Þetta er óheppileg staða en ef þú hefur séð leiki David fyrir Manchester United eða aðra leiki hans með spænska liðinu þá sérðu að hann er framúrskarandi markvörður,“ sagði miðjumaðurinn Thiago Alcantara.

De Gea gerði stór mistök í fyrsta leik Spánverja gegn nágrönnunum í Portúgal þar sem hann missti langskot Cristiano Ronaldo úr höndunum og boltinn rann í marknetið. Fleiri stór mistök hefur hann ekki gert enn, en hann varði ekki skot í fyrstu tveimur leikjum Spánverja í riðlakeppninni.

„Fjölmiðlar þurfa að horfa aðeins inn á við og átta sig á hversu frábær leikmaður hann er. Sjáið hversu oft hann hefur verið nefndur besti markvörður ensku úrvalsdeildarinnar. Hann vinnur eins og dýr og við berum fullt traust til hans.“

Spánn mætir heimamönnum í Rússlandi í 16-liða úrslitunum á morgun og eru allar líkur á því að David de Gea verði enn á milli stanganna í spænska liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×