Fótbolti

Gylfi: Við viljum halda Heimi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Vilhelm

Gylfi Þór Sigurðsson segir að leikmenn íslenska landsliðsins vilji halda Heimi Hallgrímssyni sem landsliðsþjálfara en eins og áður hefur komið fram er samningur Heimis við KSÍ útrunninn.

„Já, við viljum halda Heimi,“ sagði Gylfi eftir leikinn í kvöld. „Við viljum ekki breyta of miklu. Við viljum hafa sömu stemninguna og umhverfið í hópnum eins og það hefur verið síðan að Lars [Lagerbäck] og Heimir tóku við,“ sagði Gylfi en Heimir sagði eftir leik í kvöld að hann muni taka sér tvær vikur til að hugsa sig um.

„Ef það verður breyting vona ég að næsti þjálfari breyti ekki of miklu. Við viljum hafa þetta svona,“ sagði Gylfi en hann var vissulega svekktur að Ísland hafi fallið úr leik á HM í Rússlandi í kvöld, eftir 2-1 tap fyrir Króatíu í Rostov.

„Við erum mjög svekktir. Við vorum gríðarlega nálægt þessu í stöðunni 1-1. Við erum svekktir en getum líka verið stoltir þrátt fyrir að úrslitin hafi ekki farið á okkar veg.“

Hann neitar því ekki að færanýting hafi leikið Ísland grátt í þessu móti. „Það er hægt að horfa á fyrri hálfleikinn gegn Nígeríu en við fengum líka mikið af færum í dag sem við nýttum ekki. En svona er þetta. Okkur er refsað á þessu móti en þetta sýnir að við erum ekki langt frá þessu,“ sagði Gylfi sem skoraði mark Íslands úr víti, eftir að hafa brennt af víti í leiknum gegn Nígeríu.

„Ég varð að taka ábyrgð á þessu [og taka vítið í kvöld]. Það gerði mér erfiðara fyrir að hafa klikkað fyrir nokkrum dögum en það er gott að hafa skorað úr vítinu.“


Tengdar fréttir

Einkunnir Íslands: Emil bestur í kvöld

Venju samkvæmt gefur Vísir leikmönnum íslenska landsliðsins einkunn fyrir frammistöðu sína á HM. Það voru margir frábærir á vellinum í kvöld.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.