Fótbolti

Jóhann Berg: Það er erfitt að tala um þetta núna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson í leiknum í kvöld.
Jóhann Berg Guðmundsson í leiknum í kvöld. Vísir/Vilhelm
Jóhann Berg Guðmundsson kom aftur inn í íslenska liðið eftir að hafa misst af Nígeríuleiknum vegna meiðsla.

„Ég er gríðarlega svekktur með úrslitin. Þó að við höfum tapað þessum leik þá vorum við bara mjög nálægt þessu. Við fengum fullt af færum sem við venjulega klárum en gerðum það ekki í dag. Þetta hefur ekki alveg dottið með okkur í þessu móti,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson eftir 2-1 tap á móti Króatíu í kvöld.  

„Argentínuleikurinn var fínn en Nígeríuleikurinn spilaðist ekki vel og svo ekki þessi leikur heldur. Það vantaði herslumuninn upp á þetta hjá okkur,“ sagði Jóhann Berg.

„Aðalatriðið sem fellir okkur á þessu móti er að við skorum ekki nógu mikið af mörkum. Í dag hefðum við klárlega átt að skora fleiri mörk. Það var skalli í slá hjá okkur og fullt í gangi,“ sagði Jóhann Berg

„Við töluðum um það fyrir leikinn að gefa allt í þetta og við gerðum það. Við förum stoltir frá borði héðan en að sama skapi erum gríðarlega nálægt þessu sem er svekkjandi,“ sagði Jóhann Berg

„Þetta er búið að falla með okkur undanfarin ár og við erum búnir að spila gríðarlega vel. Það sem hefur dottið með okkur á undanförnum árum er ekki að gera það núna,“ sagði Jóhann Berg og íslenska liðið átti möguleika í lokin.

„Eftir að Argentína komst í 2-1 þá hefði okkur dugað 2-1 sigur. Það er gríðarlega svekkjandi,“ sagði Jóhann Berg.

„Það er erfitt að tala um þetta núna og ég veit ekki alveg hvað ég á að segja. Við skorum ekki nógu mörg mörk og það er svekkjandi,“ sagði Jóhann Berg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×