Fótbolti

Spjöld eða hlutkesti gætu ráðið úrslitum í kvöld í baráttu Englands og Belgíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leggjast Kieran Trippier og félagar í enska landsliðinu á bæn eftir leikinn þegar það fer fram hugsanlega hlutkesti?
Leggjast Kieran Trippier og félagar í enska landsliðinu á bæn eftir leikinn þegar það fer fram hugsanlega hlutkesti? Vísir/Getty
Sú athyglisverða staða er komin upp á HM í fótbolta í Rússlandi að það eru ágætar líkur á því að úrslitin í G-riðli gætu ráðist á hlutkesti.

England og Belgía mætast í kvöld í hreinum úrslitaleik um efsta sæti G-riðilsins og staðan gæti ekki verið jafnari fyrir leikinn.

Liðin eru bæði með sex stig af sex mögulegum, þau hafa bæði skorað átta mötk í tveimur mögulegum og fengið á sig tvö mörk.

Það lið sem vinnur leikinn tryggir sér augljóslega efsta sætið í riðlinum en ef þau gera jafntefli í þessum leik sínum þá flækist málið.

Geri liðin jafntefli þá er allt jafnt á milli þeirra hvað varðar stig, mörk og innbyrðisleiki. Þá myndu úrslitin ráðast á fjölda spjalda í riðlakeppninni.

Enska landsliðið hefur fengið tvö gul spjöld eða einu færri en Belgar. Englendingar eru því ofar en spjaldastaðan gæti vissulega breyst í leiknum í kvöld.

Endi bæði liðin með jafnmörg spjöld þá þarf FIFA að kalla til hlutkesti. Hlutkestið mun væntanlega fara fram strax á eftir leiknum í kvöld.

Á þessu sést að það þarf ekki mikið að gerast til þess að það verið hreinlega kastað upp á það hvort England eða Belgía endi í fyrsta sæti í G-riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×