Innlent

Engin niðurstaða í kjaradeilu ljósmæðra: „Þetta var ekki góður dagur“

Berghildur Erla Bernharðsdóttir og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, sést hér fyrir miðri mynd með penna í hönd við upphaf fundarins í morgun.
Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, sést hér fyrir miðri mynd með penna í hönd við upphaf fundarins í morgun. vísir/friðrik þór
Sáttafundi í kjaradeilu ljósmæðra og ríkisins lauk nú á tólfta tímanum án árangurs. Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður kjaranefndar Ljósmæðrafélags Íslands, segir annan fund hafa verið boðaðan eftir viku.

Það var þungt í henni hljóðið þegar fréttastofa ræddi við hana í húsakynnum ríkissáttasemjara eftir fundinn.

„Þetta var ekki góður dagur,“ sagði Katrín.

Aðspurð hvort það bæri mjög langt á milli ljósmæðra og samninganefndar ríkisins svaraði hún játandi.

„Já, það má segja það. Það kemur ekkert frá samninganefnd ríkisins nema það að við séum komnar á byrjunarreit og okkur þykir fulllangt að fara á byrjunarreit eftir 10 mánuði, blóð, svita og tár. Þannig að það má segja að það beri mikið á milli.“

Ljósmæður felldu kjarasamning sem skrifað var undir í maí og hófu atkvæðagreiðslu um yfirvinnubann í gær. Þeirri atkvæðagreiðslu lýkur á sunnudag. Verði yfirvinnubann ljósmæðra á heilbrigðisstofnunum þar sem þær sinna slíkri vinnu samþykkt myndi það hefjast um miðjan júlí.

Næstkomandi sunnudag taka síðan gildi uppsagnir hátt í 20 ljósmæðra á Landspítalanum en fleiri ljósmæður hafa sagt upp störfum að undanförnu og taka þær uppsagnir gildi síðar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×