Innlent

Kirkjugarðasamband Íslands lýsir yfir vonbrigðum með fjármálaáætlun

Þórhildur Erla Pálsdóttir skrifar
Kirkjugarðar landsins hafa fengið að finna fyrir fjárskorti.
Kirkjugarðar landsins hafa fengið að finna fyrir fjárskorti. Vísir/Stefán
Kirkjugarðasamband Íslands lýsir yfir vonbrigðum með að ekki sé gert ráð fyrir leiðréttingu á fjárveitingum til kirkjugarða landsins í fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Þetta kemur fram í tilkynningu sem sambandið sendi frá sér. Rekstur kirkjugarðanna hefur verið undirfjármagnaður undanfarin ár og ekki í samræmi við samning sem gerður var árið 2005 við ríkið.

Þessum fjárskorti sem kirkjugarðarnir hafa liði hefur verið mætt með því að draga úr umhirðu í görðunum og viðhaldi mannvirkja sem þeim tengjast. Nú er ástandið orðið þannig að mannvirki liggja undir skemmdum og umhirða legstaða er víða ábótavant.

Samningurinn við ríkið sem gerður var árið 2005 átti að tryggja tekjur til þess að standa undir rekstri garðanna og lögbundnum skyldum þeirra. Í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 urðu kirkjugarðarnir sem og aðrar stofnanir fyrir miklum niðurskurði en í dag tíu árum síðar hefur sú skerðing ekki verið leiðrétt. Samtals vantar 3,4 milljarða króna upp á að staðið hafi verið við samninginn frá 2005.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×