Fótbolti

Sleit krossband í hné og missir af HM

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Frank Fabra í baráttu við N´Golo Kante í vináttuleik. Aðeins annar þeirra verður með á HM í Rússlandi
Frank Fabra í baráttu við N´Golo Kante í vináttuleik. Aðeins annar þeirra verður með á HM í Rússlandi vísir/getty
Kólumbíski varnarmaðurinn Frank Fabra hefur neyðst til að draga sig úr landsliðshópnum fyrir HM í Rússlandi eftir að hafa orðið fyrir meiðslum á æfingu, tíu dögum fyrir fyrsta leik liðsins í keppninni.

Fabra meiddist á hné á æfingu liðsins síðastliðinn laugardag og er nú komið í ljós að hann er með slitið krossband.

Er um að ræða mikið áfall fyrir Kólumbíu enda var búist við því að þessi 27 ára gamli leikmaður Boca Juniors myndi hefja leik í vinstri bakverðinum hjá Kólumbíumönnum. 

Fabra er annar Suður-Ameríkumaðurinn sem slítur krossband í hné á æfingu í aðdraganda mótsins. Manuel Lanzini, leikmaður West Ham og Argentínu, verður ekki með á mótinu af þessum sökum.

Hinn 34 ára gamli Farid Diaz hefur verið kallaður inn í hópinn í stað Fabra en Diaz á 13 landsleiki að baki fyrir Kólumbíu.

Kólumbía mætir Japan í sínum fyrsta leik þann 19.júní næstkomandi en Kólumbíumenn eru einnig með Pólverjum og Senegal í H-riðli. Miklar væntingar eru til liðsins sem náði sínum besta árangri í HM-sögunni í síðustu keppni þegar liðið komst í 8-liða úrslit.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×