Innlent

Sigmundur Davíð vill vita hver leyfði „hálfnakið fólk“ í Alþingishúsinu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er formaður Miðflokksins. Vísir/Vilhelm
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hefur lagt fram fyrirspurn til forseta Alþingis þess efnis hver hafi gefið leyfi fyrir myndatöku Demoncrazy í Alþingishúsinu á dögunum.

Demoncrazy er gjörningur sem fram fór við Austurvöll í tilefni af opnun sýningar á Listahátíð Reykjavíkur. Á sýningunni má sjá myndir af berbrjósta konum á ýmsum stöðum þar sem þær „ögra þeirri jakkafataklæddu, miðaldra og karlkyns ímynd valdsins sem þær hafa alist upp við.“

Líkt og sjá má hér að neðan voru listamennirnir meðal annars í Alþingishúsinu og vill Sigmundur vita hver hafi gefið leyfi fyrir því að „hálfnakið fólk nýtti Alþingishúsið í auglýsingaskyni.“

Fyrirspurn Sigmundar Davíðs er í fimm liðum en meðal þeirra upplýsinga sem hann óskar eftir er hvort forseti Alþingis telji þessa notkun á Alþingishúsinu til þess fallin að auka virðingu þingsins.

Þá vill hann vita hvort að leyfi til myndatökunnar hafi verið tengt við stuðning forseta þingsins við málstað listamannanna auk þess sem að hann spyr hvort aðrir hópar megi vænta þess að fá leyfi fyrir ýmsum viðburðum og hvort leyfið sé til marks um það hvort vænta megi frekari tilslakana á reglum um klæðaburð alþingismanna.

Fyrirspurn Sigmundar Davíðs má lesa hér.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.