Fótbolti

Blaðamenn ræða ekki við Aron Einar fyrr en á morgun

Tómas Þór Þórðarson í Kabardinka skrifar
Aron Einar Gunnarsson svarar því á morgun hvort hann sé klár í slaginn.
Aron Einar Gunnarsson svarar því á morgun hvort hann sé klár í slaginn. vísir/vilhelm

Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði í fótbolta, var ekki einn af leikmönnum landsliðsins sem mætti í viðtöl á æfingunni í dag en fjölmiðlar biðu hvað spenntastir eftir að heyra hver staðan sé á miðjumanninum.

Leikmenn með númerin 16-23 áttu að mæta í viðtöl og bjuggust því fjölmiðlar við því að ná tali af landsliðsfyrirliðanum sem er númer 17 en hann var ekki sendur.

Ástæðan er sú að Aron mun sitja opinberan blaðamannafund FIFA ásamt Heimi Hallgrímssyni á Spartak-vellinum í Moskvu á morgun en daginn fyrir leik er alltaf blaðmannafundur með þjálfara og einum leikmanni.

Aron Einar hefur verið meiddur undanfarnar vikur og tók engan þátt í vináttulandsleikjunum á móti Noregi og Gana. Hann hefur verið að koma til og æft vel en mikið einn ásamt sjúkraþjálfara.

Aron var einnig tæpur vegna meiðsla á EM 2016 fyrir tveimur árum en beit þá á jaxlinn og byrjaði alla leikina. Það þarf vafalítið mikið til svo hann spili ekki á móti Argentínu.

Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á Facebook, Twitter og Instagram.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.