Fótbolti

Sumarmessan: Strákarnir nær allir á Messi vagninum

Lionel Messi er besti leikmaður heims segja strákarnir okkar
Lionel Messi er besti leikmaður heims segja strákarnir okkar Vísir/Getty
Ísland mætir Argentínu í fyrsta leik á HM á morgun eins og alþjóð ætti að vita. Þar mæta strákarnir okkar frábæru liði með einn besta, ef ekki þann besta, leikmann í heimi innaborðs; Lionel Messi.

Síðustu ár hafa Lionel Messi og Cristiano Ronaldo verið í sérflokki og þegar umræðan kemur upp er spurningin oft frekar „hvor er betri, Ronaldo eða Messi?“ frekar en víðari „hver er besti leikmaður í heimi?“

Guðmundur Benediktsson var hins vegar með seinni spurninguna að vopni þegar hann ferðaðist um heiminn og ræddi við strákana í íslenska landsliðinu við gerð þáttanna Fyrir Ísland sem voru sýndir á Stöð 2 í vor.

Í fyrsta þætti Sumarmessunnar á Stöð 2 Sport í gærkvöld var rætt um leikinn á laugardag og þá fengum við að sjá syrpu af svörum strákanna og yfirdrífandi meirihluti þeirra sagði Messi bestan.

„Ég var alltaf Ronaldo maður og var harður á þeim vagni, en undan farið þá verður maður að segja sá argentínski sé honum framar. Að mæta honum í fyrsta leik á HM, það verður ekki leiðinlegt,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson.

Strákarnir í settinu í Sumarmessunni tóku undir þetta.

„Ef maður ætlar að meta bara einstaklega hæfileika, eins og hjá Messi, þá getur hann gert hvað sem er með boltann. Ronaldo hefur breyst mikið og spilar bara inni í teig og skallar boltinn í netið. Á þessum tímapunkti er Messi kominn fram úr honum,“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson.

Innslagið úr Sumarmessunni má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×