Fótbolti

Fær enga sérmeðferð þrátt fyrir hetjudáðina og var fljótt kippt niður á jörðina

Tómas Þór Þórðarson í Kabardinka skrifar
Hannes Þór Halldórsson fær enga sérmeðferð.
Hannes Þór Halldórsson fær enga sérmeðferð. vísir/vilhelm
Hörður Björgvin Magnússon, bakvörður íslenska landsliðsins í fótbolta, er ósáttur við að hafa fengið dæmt á sig víti á móti Argentínu eftir að hafa séð þetta endursýnt eftir leik.

Flestir sparkspekingar eru búnir að segja dóminn rangan en til allrar hamingju varði Hannes Þór Halldórsson vítaspyrnu Lionel Messi með stæl.

„Hann hljóp eiginlega á mig en víti er víti. Auðvitað er maður þakklátur Hannesi fyrir að verja þetta og hann þakklátur fyrir að ég hafi brotið af mér inn í teig,“ segir Hörður en fyrst vítið var dæmt fékk Hannes tækifæri til að vera hetja.

Landsliðsmarkvörðurinn er oft skotspónn hinna landsliðsmannanna þegar kemur að léttu gríni og ef marka má orð Harðar hefur enginn afsláttur verið gefin þrátt fyrir hetjudáðina gegn Argentínu.

„Ég get ekki sagt að Nesi fái góða meðferð hjá strákunum. Ég hef það rosa gott hjá þeim en þeir eru snöggir að taka Hannes niður á jörðina,“ segir Hörður Björgvin og brosir, en er hann þá ekki að minnsta kosti að gera vel við Hannes?

„Nei, nei. Ég er búinn að gera það í mörg ár eins og hjá Fram. Við þekkjumst ágætlega. Ég hef stjanað við drenginn í mörg ár og mun gera áfram. Hann mun gera það á móti,“ segir Hörður Björgvin Magnússon.

Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á FacebookTwitter og Instagram.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×