Fótbolti

Formaður knattspyrnusambands Gana gripinn við að taka á móti mútum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hér má sjá formann knattspyrnusambands Gana setja múturnar í plastpoka.
Hér má sjá formann knattspyrnusambands Gana setja múturnar í plastpoka.
Ganamenn spila á Laugardalsvelli í kvöld en það gustar um knattspyrnusamband þjóðarinnar eftir að formaður sambandsins var gripinn í bólinu við að taka á móti mútum.

Í dag verður frumsýnd mynd um spillinguna í fótboltanum í Afríku en þar er Kwesi Nyantakyi, forseti knattspyrnusambands Gana, í aðalhlutverki en hann er einn valdamesti maðurinn í afríska boltanum.

Myndin er gerð af manni sem kallar sig Anas og enginn veit hvernig lítur út. Hann hefur safnað myndefni í nokkur ár þar sem verið er að múta yfirmönnum í knattspyrnuheiminum í Afríku sem og dómurum. Þar á meðal aðstoðardómara sem var á leið á HM. Sá er ekki lengur á leiðinni til Rússlands.

Í myndinni sést Nyantakyi taka við tæpum 7 milljónum króna í beinhörðum peningum. Hann er einnig í nefnd hjá FIFA og má því ekki þiggja neinar peningagjafir. Formaðurinn sagðist síðan vera með forseta landsins í vasanum og gegn sanngjarnri greiðslu geti hann hjálpað fyrirtækjum og verktökum við að ná samningum við ríkið. Forsetinn er sagður hafa brjálast vegna þessara ummæla og gefið út handtökuskipun á Nyantakyi.

Knattspyrnuunnendur í Gana hafa lengi beðið eftir því að sjá þessa mynd því þeir trúa því að nú verði hreinsað til í fótboltaheiminum þar í landi. Í gær greindu einhverjir miðlar frá því að formaðurinn væri hættur en fjölmiðlafulltrúi sambandsins segir að það sé ekki satt.

Stiklu úr myndinni frá BBC má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×