Erlent

Almannavarnir í Gvatemala sagðar hafa brugðist

Kjartan Kjartansson skrifar
Minni gos og hiti frá grjóti og eðju frá eldgosinu hefur torveldað leitar- og björgunarstarf í Gvatemala.
Minni gos og hiti frá grjóti og eðju frá eldgosinu hefur torveldað leitar- og björgunarstarf í Gvatemala. Vísir/EPA
Stjórnarandstöðuþingmenn í Gvatemala hafa gagnrýnt almannavarnir landsins harðlega og krafist afsagnar forstjóra þeirra. Þeir telja að stofnunin hafi ekki tekið mark á viðvörunum um yfirvofandi eldgos sem hefur síðan líklega valdið dauða hundruða.

Gos hófst í Fuego-eldfjallinu á sunnudag. Yfirvöld hafa staðfest að 99 hafi farist en hátt í tvö hundruð annarra er enn saknað, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Heilu þorpin grófust í ösku og aur frá eldgosinu. Leit og björgun hefur verið afar erfið á svæðinu vegna aðstæðna.

Gagnrýnt hefur verið að almannavarnir hafi ekki brugðist við gosinu með viðunandi hætti. Þær hafi ekki gefið út tilkynningu um að fólk rýmdi svæðið í tæka tíð. Stjórnendur jarðfræðistofnunar landsins hafa vísað ábyrgð á almannavarnir, þeir hafi varað við gosinu í tæka tíð.

Almannavarnir hafa hafnað ábyrgð og segja að viðvaranir þeirra hafi verið hunsaðar. Mario Taracena, stjórnarandstöðuþingmaður, segir að stjórnvöld eigi að rannsaka hvort að glæpsamleg vanræksla hafi átt sér stað.


Tengdar fréttir

192 saknað í Gvatemala

Skelfing skapaðist við rætur eldfjallsins Fuego í Gvatemala í gærkvöld þegar ný brottflutningsskipun var gefin út.

Aftur gýs í Fuego-eldfjallinu

Íbúar í grennd við Fuego-eldfjallið hafa enn á ný þurft að yfirgefa heimili sín eftir að aftur fór að gjósa í fjallinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×