Innlent

Varað við hálku á helstu fjallvegum

Kjartan Kjartansson skrifar
Snjóföl gæti gert á Hellisheiði og Mosfellsheiði. Myndin er úr safni.
Snjóföl gæti gert á Hellisheiði og Mosfellsheiði. Myndin er úr safni. Vísir/Anton Brink
Spáð er kólnandi veðri um suðvestan- og vestanvert landið í kvöld og nótt með hálku á helstu fjallvegum eftir miðnætti. Þá varar Vegagerðin við því að hæglega geti gert snjóföl á Hellisheiði og Mosfellsheiði. Hálkublettir eru nú á Hrafnseyrarheiði og snjóþekja er á Dynjandisheiði. Annars eru allar aðalleiðir greiðfærar á landinu. Þoka er á Holtavörðuheiði.

Veðurstofan spáir norðaustan 8-15 m/s og slyddu með köflum á Vestfjörðum. Sunnan- og austanlands er spáð suðvestan 8-15 m/s, einna hvössustu með suðausturströndinni. Gert er ráð fyrir samfelldri rigningu sunnanlands en stytta á upp um tíma í kvöld. Létta á til norðaustanlands.

Á morgun er spáð austlægri átt, 5-13 m/s. Rigning verður um landið sunnanvert einkum á Suðausturlandi en yfirleitt þurrt annars staðar. Úrkomuminna verður annað kvöld og hiti á bilinu fimm til tólf stig, svalast norðvestantil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×