Enski boltinn

Terry: Verð áfram ef við förum upp

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
John Terry kom til Aston Villa síðasta sumar og var strax gerður að fyrirliða liðsins.
John Terry kom til Aston Villa síðasta sumar og var strax gerður að fyrirliða liðsins. vísir/getty
Chelsea gæti þurft að mæta fyrrum fyrirliða sínum til margra ára John Terry á næsta tímabili því Englendingurinn ætlar að vera áfram hjá Aston Villa komist liðið upp í deild hinna bestu.

Terry kom til Villa frá Chelsea síðasta sumar á samningi til eins árs og lét nýlega hafa eftir sér að hann heði áhuga á því að færa sig yfir í þjálfun. Hins vegar sagði hann í viðtali við heimasíðu Villa að hann myndi vera áfram fari liðið upp.

„Ég vona að þetta sé ekki endirinn. Ef við förum upp verð ég áfram og get vonandi spilað nokkur ár í viðbót í úrvalsdeildinni,“ sagði Terry.

„Ég hef notið lífsins hér og elska hversu vel hefur verið tekið á móti mér. Ég varð að sanna mig fyrir stuðningsmönnunum og stjórinn sýndi mér traust í að fá til sín 36 ára gamlan mann.“

Terry hefur komið við sögu í 32 deildarleikjum fyrir Villa á tímabilinu og var liður í því að tryggja félaginu umspilssæti í fyrsta skipti í sögu þess, en Villa hafði verið í úrvalsdeildinni samfellt frá stofnun hennar og þar til vorið 2016 þegar félagið féll í Championship deildinna.

„Ég vildi ekki að fólk hugsaði: „Hann er bara að fara annað til að fá borgað eitt ár í viðbót.“ Ég hef aldrei verið slíkur karakter og ég held að stuðningsmennirnir hafi séð það á frammistöðu minni í vetur.“

John Terry og Birkir Bjarnason verða í eldlínunni þegar Aston Villa mætir Middlesbrough í fyrsta leik undanúrslitanna í umspilinu klukkan 16:15 og verður hann í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×