Innlent

Hvassviðrið um hvítasunnuna getur hæglega feykt trampólínum langar leiðir

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hún er ekki kræsileg vindaspáin fyrir hádegið á laugardag fyrir sunnanvert, vestanvert og austanvert landið.
Hún er ekki kræsileg vindaspáin fyrir hádegið á laugardag fyrir sunnanvert, vestanvert og austanvert landið. veðurstofa íslands

Suðaustan hvassviðrið sem Veðurstofa Íslands spáir um hvítasunnuhelgina getur jafnvel orðið að stormi að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings. Vindstyrkurinn geti hæglega feykt trampólínum langar leiðir, svo dæmi sé tekið, en með vindinum fylgir einnig talsverð rigning.

Svona veður er óvenjulegt á þessu árstíma að því er segir á vef Veðurstofunnar en útlit er fyrir mesta hvassviðrið á laugardag. Þá verður hvassast suðvestanlands en á norðanverðu landinu verður vindurinn aðeins skárri og ekki jafnmikil úrkoma.

Lægðin er þó ekki úr sögunni á sunnudag þar sem hún tekur sér stöðu skammt vestur af landinu og viðheldur stífum vindi með vætu allan þann dag ef spárnar ganga eftir.

Veðurhorfur á landinu í dag og næstu daga: 
Vaxandi suðaustanátt, 13-20 m/s síðdegis, talsverð rigning og snarpar hviður við fjöll. Heldur hægari og þurrt fram á kvöld á Norður- og Austurlandi. Hiti 7 til 15 stig, hlýjast norðaustan til á landinu. Snýst í hægari suðvestanátt vestanlands í kvöld og dregur úr úrkomu. 

Suðvestan 5-13 á morgun og skúrir eða slydduél vestan til, en léttir til á austanverðu landinu. Hiti 3 til 10 stig, mildast austast.

Á föstudag:
Suðvestan 5-13 m/s og dálitlir skúrir eða slydduél vestan til, en léttir til á austanverðu landinu. Hiti 3 til 10 stig, hlýjast austanlands. 

Á laugardag:
Suðaustan 15-23, hvassast suðvestanlands. Víða rigning, talsverð eða mikil úrkoma á sunnanverðu landinu. Hiti 5 til 12 stig, hlýjast fyrir norðan. 

Á sunnudag (hvítasunnudagur):
Sunnan- og suðvestanátt, víða 13-18 m/s. Rigning og skúrir, en þurrt norðaustan til á landinu. Hiti 3 til 10 stig, mildast á Norðausturlandi. 

Á mánudag (annar í hvítasunnu):
Sunnan 8-13 með skúrum eða rigningu, en áfram þurrt norðaustan til. Hiti breytist lítið. 

Á þriðjudag:
Útlit fyrir suðaustanátt með rigningu sunnan- og vestanlands, en þurrt fyrir norðan og austan. Hiti 6 til 12 stig, hlýjast norðan til.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.