Erlent

Yfir hundrað létust í flugslysinu á Kúbu

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Yfir hundrað manns eru látnir.
Yfir hundrað manns eru látnir. Vísir/afp
Yfir hundrað manns létust þegar Boeing 737-flugvél brotlenti skömmu eftir flugtak í dag. Þetta hefur breska ríkisútvarpið BBC eftir kúbverskum ríkisfjölmiðli. Viðbragðsaðilar náðu að koma þremur farþegum til bjargar en þeir voru dregnir úr flaki flugvélarinnar. Þeir liggja nú þungt haldnir á spítala.

Um borð í vélinni voru hundrað og fjórir farþegar auk níu áhafnarmeðlima.

„Nýjustu fréttir lofa ekki góðu því svo virðist sem fórnarlömbin séu mörg,“ segir Miguel Díaz-Canel, forseti Kúbu, sem mætti á vettvang slyssins. Díaz-Canel tók við embætti forseta Kúbu 19. apríl síðastliðinn.

Viðbragðsaðilum hefur tekist að slökkva eldinn og unnið er að því að bera kennsl á hina látnu. Yfirvöld hafa hrundið af stað rannsókn á tildrögum flugslyssins.

Flugvélin var á leið frá Havana, höfuðstaðar Kúbu, austur til kúbversku borgarinnar Holguin. Hún brotlenti á hraðbraut á milli Santiago de las Vegas og Boyeros, nærri Jon Martin flugvellinum í Havana.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.