Fótbolti

Rebic hetjan sem tryggði Frankfurt bikarinn

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Rebic skoraði tvö af þremur mörkum Frankfurt í kvöld
Rebic skoraði tvö af þremur mörkum Frankfurt í kvöld Vísir/Getty

Frankfurt er bikarmeistari eftir sigur á Bayern München í úrslitaleiknum í kvöld. Bayern náði því ekki að leika eftir leik Wolfsburg í kvennafótboltanum og tryggja sér tvennuna heima fyrir.

Ante Rebic kom Frankfurt yfir á 11. mínútu leiksins eftir framúrskarandi stungusendingu Kevin-Prince Boateng inn í hlaupið hjá Rebic sem kom honum einum gegn Sven Ulreich í markinu og Króatinn kláraði vel í marknetið.

Frankfurt leiddi þegar liðin gengu til búningsherbergja en Pólverjinn Robert Lewandowski jafnaði fyrir Bayern stuttu eftir að seinni hálfleikur hófst.

Allt stefndi í að framlengja þyrfti leikinn þegar Rebic kom Frankfurt aftur yfir með frábæru marki. Danny da Costa átti stórbrotna sendingu sem hann gæti líklegast ekki leikið eftir þótt hann fengi til þess tíu tilraunir. Boltinn fór yfir nærri allan völlinn og lenti á milli miðvarðanna tveggja. Rebic tók sprett sem Usain Bolt yrði stoltur af og var á undan varnarmönnunum í boltann og vippaði boltanum yfir Ulreich í markinu. Glæsimark og Frankfurt komið með sjö fingur á bikarinn.

Allir tíu fingurnir gátu svo fundið fyrir bikarnum þegar Mijat Gacinovic skoraði á sjöttu mínútu uppbótartímans. Bayern fékk hornspyrnu og allir leikmenn liðsins, markmaðurin með talinn, höfðu safnast fyrir í teignum. Boltinn barst til Gacinovic sem tók á sprett og í stað þess að taka áhættuna á því að hitta ekki markið, þó það væri tómt, hljóp hann upp allan völlinn og vann kapphlaupið við varnarmenn Bayern og skilaði boltanum í autt netið og tryggði Frankfurt fimmta bikarmeistaratitilinn í sögu félagsins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.