Innlent

Gert verði ítarlegt mat áður en ákvörðun verður tekin um framtíð hvalveiða við Íslandsstrendur

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun ekki beita sér sérstaklega fyrir því að fyrirhuguðum hvalveiðum sem hefjast í sumar verði afstýrt. Hún vill aftur á móti að í haust verði gert mat á umhverfislegum-, samfélagslegum- og efnahagslegum áhrifum hvalveiða, áður en ákvörðun verður tekin um framtíð hvalveiða við Íslandsstrendur.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, innti eftir svörum forsætisráðherra um afstöðu sína til hvalveiða við Íslandsstrendur í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. Í fyrirspurn sinni vísaði Þorgerður Katrín til þess að það hafi verið yfirlýst stefna Vinstri grænna síðan árið 2015 að leggjast gegn hvalveiðum og spurði hún ráðherra hvort stefnu flokksins yrði fylgt eftir í þeim efnum.

Katrín Jakobsdóttir var ekki afdráttarlaus í svörum sínum um það hvort hún hygðist beita sér fyrir því að hvalveiðum sem hefjast eiga í sumar verði afstýrt. Vísaði hún aftur á móti til þess að í ár sé síðasta árið af fimm ára áætlun um hvalveiðar við Íslandsstrendur sem gefinn var út kvóti fyrir árið 2013. Sagði ráðherra það ekki vera til marks um góða stjórnsýsluhætti að snúa við fyrri ákvörðun.

„Hins vegar liggur það alveg fyrir að frá og með hausti 2018, þá þarf að taka nýja ákvörðun um framhald hvalveiða, hvort það verði gefinn út nýr kvóti eða ekki. Og ég tel mjög brýnt að það fari fram áður en að slík ný ákvörðun er tekin, mat eins og háttvirtur þingmaður vísar hér í í sinni fyrispurn, mat á umhverfisáhrifum hvalveiða, samfélagslegum áhrifum og efnahagslegum áhrifum,“ sagði Katrín Jakobsdóttir fórsætisráðherra í svari sínu á Alþingi í dag.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.