Erlent

Svart útlit í Argentínu: Himinháir vextir, verðbólga og pesóinn fellur enn

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Mauricio Macri lofaði umbótum en hagfræðingar segja erfiða tíma framundan í Argentínu
Mauricio Macri lofaði umbótum en hagfræðingar segja erfiða tíma framundan í Argentínu Vísir/EPA
Seðlabanki Argentínu hækkaði í dag stýrivexti umtalsvert í annað sinn á tveimur dögum en gjaldmiðill landsins er enn í frjálsu falli og útlitið svart. Stýrivextir eru nú 40% en síðast í gær voru þeir hækkaðir úr rúmum þrjátíu prósentum í 33.25%. Í síðustu viku voru vextirnir 27.25% og því ljóst að þróunin hefur verið mjög hröð síðustu daga.

Argentínski pesóinn hefur tapað fjórðungi verðgildis síns á liðnu ári og hagfræðingar segja að það versta sé líklega enn framundan. Verðbólga var 25% í fyrra sem er mesta verðbólga rómönsku ameríku fyrir utan Venesúela.

Mauricio Macri, forseti Argentínu, hefur lofað efnahagsumbótum og að vinda ofan af gjörðum forvera síns í embætti, Perónistans Cristinu Fernandez de Kirchner. Hún rak verndarstefnu í milliríkjaviðskiptum og hélt ríkisútgjöldum háum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×