Erlent

Eldgosið á Havaí ógnar hundruðum íbúðarhúsa

Kjartan Kjartansson skrifar
Hraunspýjurnar standa tugi metra upp í loftið frá sprungunum sem hafa opnast.
Hraunspýjurnar standa tugi metra upp í loftið frá sprungunum sem hafa opnast. Vísir/AFP
Eldur og hraun sem vellur úr gossprungum sem hafa opnast á Stóru eyju Havaí hefur eyðilagt 26 íbúðarhús og ógnar hundruðum til viðbótar. Um tvö þúsund manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna eldgossins í Kilauea-eldfjallinu.

Nýjar gossprungur opnuðust í nótt og hafa hrauntungur spýst allt að sjötíu metra upp í loftið, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Einhverjir íbúar hafa fengið að snúa heim til sín til að bjarga gæludýrum og sækja lyf eða verðmæti. Yfirvöld telja hins vegar ekki óhætt fyrir fólk að dvelja á svæðinu vegna eldhættu og mikils magns brennisteinsgass sem fylgir gosinu.

Gosið í Kilauea hófst á fimmtudag en auk eldvirkninnar hefur fjöldi jarðskjálfta riðið yfir. Á föstudag varð jarðskjálfti upp á 6,9, sá stærsti á eyjaklasanum í rúm fjörutíu ár.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×