Erlent

Segir Írani hafa logið um kjarnorkuvopnaáætlun sína

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá blaðamannafundi Netanyahu.
Frá blaðamannafundi Netanyahu. Vísir/AFP
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, segir yfirvöld Íran hafa unnið að þróun kjarnorkuvopna í laumi og í langan tíma. Sú vinna hafi ekki endilega hætt eftir að Íran skrifaði undir kjarnorkusamkomulagið svokallaða og samþykkti að láta af kjarnorkuvopnaáætlun sinni í skiptum fyrir það að viðskiptaþvingunum og refsiaðgerðum gegn Íran yrði hætt.

Forsætisráðherrann boðaði til blaðamannafundar nú í dag þar sem hann byrjaði á því að spila yfirlýsingar frá hæst settu embættismönnum Íran þar sem þeir sögðu ríkið aldrei hafa unnið að þróun kjarnorkuvopna. Þá sýndi hann skjöl og myndefni sem hann sagði sanna að yfirvöld Íran hefðu brotið gegn kjarnorkusamkomulaginu svokallaða í laumi. Leyniþjónusta íran mun hafa öðlast þessi gögn frá Íran.

Hann sagði Ísrael hafa deilt umræddu efni með Bandaríkjunum og að yfirvöld Bandaríkjanna myndu staðfesta að það væri raunverulegt. Þá sagðist Netanyahu tilbúinn til að útvega fleiri ríkjum gögnin og til stæði að koma þeim til Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar.

Project Amad

Netanyahu sagði yfirvöld Ísrael hafa um árabil vitað af leynilegu verkefni Írana sem bæri nafnið „Project Amad“. Það verkefni sneri að þróun kjarnorkuvopna.

„Við getum nú sannað að Project Amad var umfangsmikið verkefni sem snerist um það að þróa, byggja og prófa kjarnorkuvopn,“ sagði Netanyahu. „Við getum einnig sannað að Íran hefur geymt öll gögn úr þessu verkefni til að nota þau til að þróa kjarnorkuvopn þegar þeim hentar.“

Forsætisráðherrann sýndi glæru sem hann sagði vera úr kynningu yfirvalda Íran og fjallaði um markmið Amad-verkefnisins. Það væri að þróa, framleiða og prófa fimm, tíu kílótonna kjarnorkuvopn og þróa leiðir til að koma þeim á eldflaugar.

Netanyahu sýndi þó ekki fram á að yfirvöld Íran hefðu brotið gegn kjarnorkusamkomulaginu. þar að auki felur samkomulagið ekki í sér að Íran megi ekki eiga gömul gögn um kjarnorkuvopnaþróun.

Hann sagði að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, myndi „taka rétta ákvörðun“ um kjarnorkusamkomulagið. Trump hefur ítrekað lýst yfir andstöðu sinni við samkomulagið og gefið í skyn að hann muni slíta Bandaríkin frá því. Eftir blaðamannafund Netanyahu sagði Trump við blaðamenn að það væri til marks um það að hann hefði haft rétt fyrir sér varðandi samkomulagið. Hann sagðist ætla að taka ákvörðun fyrir 12. maí.

Sjá má blaðamannafund Netanyahu hér að neðan.


Tengdar fréttir

Hvetja Trump til að rifta ekki kjarnorkusamkomulaginu

Trump hefur ítrekað hótað því að ef bandamenn Bandaríkjanna í Evrópu lagi ekki „hræðilega galla“ í samkomulaginu fyrir 12. maí muni hann beita viðskiptaþvingunum gegn Íran aftur.

Nýr ráðgjafi Trump umdeildur

John Bolton hefur talað opinberlega fyrir stríði við Íran og Norður-Kóreu og segir "hnattvæðingarsinna“ vera að ganga frá Bandaríkjunum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.