Fimmtán blaðsíður af minnisblöðum Comey voru opinberaðar nú í nótt og eru þær sagðar varpa nýju ljósi á samskipti hans og forsetans, sem rak Comey í maí í fyrra.
Þeir hafa farið hörðum orðum hvor um annan síðustu vikur eða allt frá því að glefsur úr æviminningum Comey, A Higher Loyalty, fóru að leka í bandaríska fjölmiðla. Trump hefur til að mynda kallað Comey „slímbolta“ og „versta forstjóra FBI frá upphafi“
James Comey Memos just out and show clearly that there was NO COLLUSION and NO OBSTRUCTION. Also, he leaked classified information. WOW! Will the Witch Hunt continue?
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) April 20, 2018
Comey ritar að Trump hafi tjáð sér að Flynn, að hans mati, væri með „alvarlega lélega dómgreind.“ Því næst hafi hann kennt Flynn um að hafi trassað það að svara símtali þjóðarleiðtoga, sem hafi ætlað sér að óska Trump til hamingju með embættistökuna í janúar í fyrra.
„Ég hafði ekki sagt neitt á þessum tímapunkti og ekki minnst einu orði á áhuga og samskipti FBI við Flynn,“ skrifar Comey.
Sjá einnig: Comey talaði í fyrirsögnum
Um þetta leyti, í upphafi síðasta árs, var FBI búið að yfirheyra Flynn vegna samskipta hans við sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum, Sergey Kislyak. Varnarmálaráðuneytið hafði einnig varað Hvíta húsið að sérfræðingar úr þeirra röðum óttuðust að Flynn væri ginkeyptur fyrir mútum.
Trump rak Flynn þann 13. febrúar í fyrra og var ástæðan sögð vera sú að hann hafi sagt Hvíta húsinu ósatt um samskipti sín við Rússa. Í öðru minnisblaði segir Comey að Trump hafi boðað hann á sinn fund, vísað öðrum embættismönnum út af skrifstofunni og því næst hvatt Comey til að hætta að rannsaka málefni Flynn. Hann væri þrátt fyrir allt „góður gæi.“
Minnisblöðin benda einnig til þess að þáverandi starfsmannastjóri Hvíta hússins, Reince Preibus, hafi spurt Comey hvort að FBI væri að hlera samskipti Flynn.
Frekar má fræðast um minnisblöðin, sem sögð eru styðja það sem fram kemur í æviminningum Comey, á vef Guardian og breska ríkisútvarpsins.