Fótbolti

Kjartani brást bogalistinn á vítapunktinum í tapi

Anton Ingi Leifsson skrifar
Kjartan baðar út höndunum í leik með Horsens.
Kjartan baðar út höndunum í leik með Horsens. vísir/getty
Kjartan Henry Finnbogason misnotaði vítaspyrnu er lið hans, Horsens, tapaði 3-2 fyrir ríkjandi meisturum FCK í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Horsens fékk vítaspyrnu eftir rúmlega tvær mínútur og á punktinn steig KR-ingurinn en hann lét Stephan Andersen verja frá sér. Horsens komst þó yfir skömmu síðar með marki Alexander Ludwig.

Paragvæinn, Frederico Santander, jafnaði metin eftir stundarfjórðung og skömmu fyrir leikhlé kom hann meisturunum í 2-1.

Þannig stóðu leikar allt þangað til á 62. mínútu er varnarmaðurinn Erik Johansson, sem er nýstiginn upp úr erfiðum meiðsli, innsiglaði sigurinn fyrir FCK.

Rune Frantsen náði að klóra í bakkann fyrir Horsens áður en yfir lauk og Mads Juel Andersen fékk rautt spjald í liði Horsens í uppbótartíma en lokatölur 3-2 sigur FCK.

Kjartan spilaði allan leikinn fyrir Horsens sem er í sjötta sætinu í umspilinu um titilinn í Danmörku en FCK er í þriðja sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×