Enski boltinn

Coleman leystur undan samningi hjá Sunderland og félagið selt

Anton Ingi Leifsson skrifar
Það er allt í rugli hjá Sunderland.
Það er allt í rugli hjá Sunderland. vísir/afp
Chris Coleman hefur verið leystur undan samningi sínum sem stjóri Sunderland eftir að liðið féll úr B-deildinni niður í C-deildina á dögunum.

Sunderland, sem féll úr ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð, féll aftur niður um deild þetta tímabilið og hefur liðið því fallið niður um tvær deildir á tveimur árum.

Coleman tók við liðinu í nóvember af Simon Grayson en hann hætti með Wales til þess að taka við stjórnartaumunum á leikvangi ljóssins. Hann vildi halda áfram hjá félaginu en nú er hann horfinn á brott.

Aðstoðarmaður Coleman hefur einnig verið leystur undan samningi en liðið á eftir að spila einn leik í B-deildinni á þessu tímabili. Ekki er ljóst hver stýrir liðinu í þeim leik sem lýsir ástandinu vel.

Ellis Short, eigandi Sunderland, hefur einnig greint frá því að hann sé búinn að samþykkja tilboð í félagið en nokkrir aðilar hafa ákveðið að kaupa félagið saman. Þar fremstur í flokki fer athafnamaðurinn Stewart Donald.

Hann hefur nú þegar borgað allar skuldir Sunderland en skuldir félagsins eru rosalegar. Liðið hefur verið á lista UEFA yfir mestu skuldir allra liða í Evrópu en liðið situr þar í þrettánda sæti fyrir ofan félög eins og PSG og Porto.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×