Innlent

Handteknir við að ýta bifreið

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Lögreglan handtók mennina á Hverfisgötu í nótt.
Lögreglan handtók mennina á Hverfisgötu í nótt. Vísir/KTD
Tveir menn voru handteknir eftir umferðaróhapp á Hverfisgötu í nótt. Þar hafði verið ekið á kyrrstæða bifreið sem er sögð mikið skemmd eftir áreksturinn.

Þegar lögreglan blandaði sér í málið voru tveir menn á vettvangi óhappsins „að reyna að ýta bifreið sem þeir óku út af götunni,“ eins og það er orðað í skeyti lögreglunnar.

Lögreglumenn voru engu nær um það hvor mannanna hafði í raun ekið bifreiðinni þegar hún hafnaði á þeirri kyrrstæðu og voru þeir því báðir handteknir. Þeir hafa fengið að gista í fangageymslu í nótt vegna rannsóknar málsins en ekki fylgir sögunni hvort þeir hafi verið í annarlegu ástandi.

Annað var hins vegar upp á teningnum í Austurbænum skömmu eftir miðnætti þar sem „mjög ölvaður maður“ neitaði að yfirgefa húsnæði „þar sem hann átti ekkert erindi.“ Maðurinn er sagður hafa verið svo drukkinn að hann var ekki „fær til að vera á ferðinni“ og á hann jafnframt ekki að hafa fengið inn í Gistiskýlinu.

Því var ákveðið að best væri að hann svæfi úr sér vímuna í fangaklefa í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×