Erlent

Trump dregur í land með árásir í Sýrlandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Tíst Trump í gær þar sem virtist boða árásir í Sýrlandi olli mörgum heilabrotum, ekki síst vegna þess að Trump hefur gagnrýnt fyrri ríkisstjórn Baracks Obama harðlega fyrir að hafa greint frá áætluðum hernaðaraðgerðum fyrir fram.
Tíst Trump í gær þar sem virtist boða árásir í Sýrlandi olli mörgum heilabrotum, ekki síst vegna þess að Trump hefur gagnrýnt fyrri ríkisstjórn Baracks Obama harðlega fyrir að hafa greint frá áætluðum hernaðaraðgerðum fyrir fram. Vísir/AFP
Aðeins degi eftir að hann hótaði Rússum með eldflaugaárásum í Sýrlandi er Donald Trump Bandaríkjaforseti byrjaður að draga í land. Hann tísti í morgun um að slíkar árásir gætu átt sér stað „fljótlega eða ekki svo fljótlega“.

Stirt hefur verið á milli Rússa, sem hafa stutt Sýrlandsstjórn með hernaðarmætti sínum, og vestrænna ríkja undanfarið, ekki síst eftir efnavopnaárás í bænum Douma í Austur-Ghouta um helgina. Vestræn ríki hafa sakað ríkisstjórn Bashars al-Assad forseta um að hafa staðið að baki henni. Því hefur ríkisstjórn Assad og Rússar harðneitað.

Trump hótaði Rússum með yfirvofandi eldflaugaárásum á Twitter í gær vegna efnavopnaárásarinnar en áður höfðu Rússar sagst myndu skjóta niður öll flugskeyti sem skotið yrði að Sýrlandi. Rússar brugðust við hótunum Trump í gær með því að segja að þeir stunduðu ekki samfélagsmiðlaerindrekstur.

Annað hljóð var komið í strokkinn hjá Trump á Twitter í morgun.

„Sagði aldrei hvenær árás á Sýrland myndi eiga sér stað. Gæti verið mjög fljótlega eða alls ekki svo fljótlega!“ tísti Bandaríkjaforseti.

Nokkuð holur hljómur var þó í upphaflegu tísti Trump um mögulegar eldflaugaárásir. Aðeins hálftíma eftir tístið þar sem hann hótaði Rússum harmaði hann hversu slæmt samband Bandaríkjamanna og Rússa væri orðið. Spurði hann í tísti hvort að þeir ættu að hætta „vopnakapphlaupi“.


Tengdar fréttir

Allt á suðupunkti eftir efnavopnaárás

Bandaríkin og Rússland í hár saman vegna meintrar efnavopnaárásar. Donald Trump segir von á eldflaugaskotum. WHO heimtar aðgang að árásarvettvangi. Merkel harmar árangursleysi öryggisráðs SÞ. Rússneskir þingmenn munu funda með Assad Sýrlandsforseta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×