Erlent

Getur ekki útilokað að stríð brjótist út milli Bandaríkjanna og Rússlands

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Vassily Nebenzia, sendiherra Rússlands hjá Sameinuðu þjóðunum.
Vassily Nebenzia, sendiherra Rússlands hjá Sameinuðu þjóðunum.
Vassily Nebenzia, sendiherra Rússlands hjá Sameinuðu þjóðunum sagði í dag að ekki væri hægt að útiloka möguleikann á því að stríð brjótist út milli Bandaríkjanna og Rússlands, að því er fram kemur í frétt Reuters. Þá hvatti hann Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra til að ráðast ekki í hernaðaraðgerðir gegn Sýrlandi.

Stirt hefur verið á milli Rússa, sem hafa stutt Sýrlandsstjórn með hernaðarmætti sínum, og vestrænna ríkja undanfarið, ekki síst eftir efnavopnaárás í bænum Douma í Austur-Ghouta um helgina.

Vestræn ríki hafa sakað ríkisstjórn Bashars al-Assad forseta um að hafa staðið að baki henni. Því hefur ríkisstjórn Assad og Rússar harðneitað.

Sjá einnig: Trump dregur í land með árásir í Sýrlandi

„Það er í algjörum forgangi að afstýra stríði,“ sagði Nebenzia við blaðamenn í dag en gat þó ekki útilokað að stríð brytist út milli Bandaríkjanna og Rússa. Rússar hafa nú boðað til neyðarfundar í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna en þar verða ræddar mögulegar hernaðaraðgerir Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands í Sýrlandi.

Breska ríkisstjórnin hefur gefið það út að grípa verði til aðgerða í Sýrlandi til að koma í veg fyrir frekari notkun efnavopna. Þá sagðist Frakklandsforseti, Emmanuel Macron, hafa sannanir fyrir því að Sýrlandsstjórn hafi beitt efnavopnum í árás á Douma.


Tengdar fréttir

Allt á suðupunkti eftir efnavopnaárás

Bandaríkin og Rússland í hár saman vegna meintrar efnavopnaárásar. Donald Trump segir von á eldflaugaskotum. WHO heimtar aðgang að árásarvettvangi. Merkel harmar árangursleysi öryggisráðs SÞ. Rússneskir þingmenn munu funda með Assad Sýrlandsforseta.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.