Innlent

Sagði afstöðu íslenskra yfirvalda til árásanna mjög misvísandi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Myndin er tekin rétt áður en fundur utanríkismálanefndar og utanríkisráðherra hófst klukkan 20 í kvöld.
Myndin er tekin rétt áður en fundur utanríkismálanefndar og utanríkisráðherra hófst klukkan 20 í kvöld. Vísir/Egill

Fundur utanríkismálanefndar og utanríkisráðherra hófst í Alþingishúsinu um klukkan 20 í kvöld. Embættismenn frá ráðuneytinu auk nefndarmanna voru mættir þegar fréttamann Stöðvar 2 bar að garði en boðað var til fundarins vegna loftárása Bandaríkjanna, Frakklands og Bretlands í Sýrlandi.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði fyrir fundinn á áttunda tímanum í kvöld að afstaða íslenskra yfirvalda til árásanna væri mjög misvísandi. Því væri brýnt að utanríkisráðherra geri betur grein fyrir afstöðu stjórnvalda í málinu.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra kvaðst fyrir fundinn munu upplýsa nefndina eftir bestu getu. Þá sagði hann afstöðu Íslendinga í samræmi við nágrannalönd og þær þjóðir sem við berum okkur saman við.

Að sögn Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, formanns utanríkismálanefndar, er ráðgert að fundurinn standi yfir í um klukkustund.

Nokkurs misræmi þykir hafa gætt í viðbrögðum íslenskra stjórnvalda við loftárásum vesturveldanna. Utanríkisráðherra sagði í gær skiljanlegt að ríkin þrjú hafi gripið til hernaðaraðgerða eftir efnavopaárásar sem Sýrlandsstjórn er sökuð um að hafa gert á bæinn Douma um síðustu helgi.

Nokkrir þingmenn hafa lýst efasemdum sínum um árásirnar. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði í þættinum Sprengisandi í hádeginu að hún væri mótfallin árásunum. Loftárásir hefðu engan vanda leyst í Sýrlandi fram að þessu.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.