Innlent

Landlæknir vill gögn um frestanir aðgerða

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Landlæknir segir brýnt að bregðast við endurteknum frestunum á stórum aðgerðum og hefur kallað eftir ítarlegum gögnum frá Landspítalanum um ástæður frestana. Hún telur þarfast að efla mönnun og segir unnið að breytingum á vinnuskipulagi hjúkrunarfræðinga í þeim tilgangi.

Læknaráð Landspítalans lýsti í síðustu viku yfir miklum áhyggjum af viðvarandi skorti á legurýmum á gjörgæsludeildum spítalans og ítrekuðum frestunum stærri aðgerða vegna þess. Í fyrra þurfti að fresta 56% allra hjartaaðgerða og eru dæmi um að sömu aðgerðinni hafi verið frestað fimm sinnum. 

Landlæknir hefur nú kallað eftir gögnum og verður unnið að aðgerðum samkvæmt þeim. „Það er hversu margir eru að bíða og hversu lengi þeir hafa beðið. Og síðan líka nánar um þessar frestanir; hversu margar þær voru árið 2017 og síðan það sem af er þessu ári," segir Alma D. Möller landlæknir.

Hún telur brýnast að efla mönnun til þess að hægt sé að taka á móti fólki á legudeildum.  „Það er verkefni í gangi hjá Landspítala sem stuðlar að því að gera vinnuumhverfi hjúkrunarfræðinga betra og þá einnig á gjörgæslunni og vonir eru bundnar við að það skili árangri," segir Alma.  „Það er verið að breyta vinnuskipulagi og ýmislegu í vinnutilhögun hjúkrunarfræðinga."

Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans hefur bent á að spítalinn ráði illa við mikla fjölgun ferðamanna sem áttu 17% legudaga á síðasta ári. Landlæknir segir að þetta þurfi að skoða.   „Varðandi fjölgun útlendinga þarf að grípa til margvíslegra forvarna eins og forstjóri Landspítlans hefur bent á."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×